Bogi Nilsson hættir skýrslugerð

Bogi Nilsson, fyrrverandi ríkissaksóknari, sendi fyrr í kvöld frá sér tilkynningu þess efnis að hann hygðist hætta við það verkefni að stýra gerð skýrslu um starfsemi Glitnis, Landsbankans og Kaupþings, þar sem sér finnist hann ekki lengur njóta nægilegs almenns trausts til að sinna því. 

Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari fór þess á leit við Boga um miðjan síðasta mánuð að hann stýrði gerð slíkrar skýrslu og féllst Bogi á það. Var markmiðið einkum að skoða starfsemi viðskiptabankanna þriggja síðustu mánuði áður en bankarnir sigldu í þrot og kanna hvort eitthvað í starfsemi bankanna gefi tilefni til lögreglurannsóknar.

Í tilkynningu sem Bogi sendi frá sér fyrr í kvöld og lesa má í heild sinni hér að neðan kemur fram að nokkurri gagnöflun í málinu sem og undirbúningsvinnu sé þegar lokið. Í framhaldi greinir Bogi frá tillögum sínum til ríkissaksóknara um hvernig hann taldi rétt að standa að athugun á starfsemi bankanna. 

„Þótt ekki liggi fyrir beinar eða skýrar grunsemdir um að refsiverð lögbrot hafi verið framin í starfsemi bankanna er réttlætanlegt og jafnvel sjálfsagt, þótt óvenjulegt sé, að ríkissaksóknari efni til slíkrar frumathugunar sem æðsti handhafi ákæruvalds m.a. vegna þeirra gífurlegu fjármuna sem glatast hafa og hörmulegra afleiðinga bankahrunsins fyrir land og þjóð,“ segir m.a. í bréfi Boga og áfram heldur hann: 

„Umfang tjónsins, eitt út af fyrir sig, vekur grunsemdir um að refsiverð lögbrot hafi verið framin í starfsemi bankanna.  Þá hafa komið fram vísbendingar um margvísleg kross eigna-og eigenda tengsl hjá bönkunum og helstu viðskiptavinum þeirra, sem ástæða er til að kanna rækilega.  Kvittur er um sitthvað misjafnt varðandi peningamarkaðssjóði bankanna; um óeðlileg lán til stjórnenda þeirra og um grunsamlegar ráðstafanir og fjármagnsflutninga skömmu fyrir hrunið svo eitthvað sé nefnt. 
   

Ljóst er að ákæruvaldið hefur ekki á að skipa starfsmönnum sem geta innt af hendi þá sérfræðilegu athugun sem nauðsynlega þarf að framkvæma á þess vegum í bönkunum.  Þá verður að hafa í huga að flest eða öll stærstu endurskoðunarfyrirtæki landsins hafa með einum eða öðrum hætti tengst eftirliti og endurskoðun á íslensku bönkunum eða helstu viðskiptavinum þeirra. Loks hafa margir íslenskir hagfræðingar og aðrir sérfræðingar á sviði bankamála tjáð sig um bankahrunið í fjölmiðlum. Í raun eru örfáir ef nokkrir hér á landi sem búa yfir sérfræðiþekkingu til að sinna nákvæmri  úttekt á starfsemi bankanna síðustu mánuðina og geta um leið talist óvilhallir og trúverðugir í því starfi,“ skrifar Bogi og bendir á að hann hafi ítrekað í bréfum til ríkissaksóknara bent á nauðsyn þess að leita til erlendra óháðra sérfræðinga sem framkvæmi úttekt á starfsemi bankanna, útibúa þeirra og fyrirtækja í þeirra eigu, tilfærslu eigna, einkum á síðustu mánuðum starfseminnar fyrir grun þeirra.   
 




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka