Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nóg að snúast í nótt. Tilkynnt var um eld í ruslatunnu við húsvegg hjá iðnaðarhúsnæði við Fiskislóð, um klukkan þrjú. Eldurinn var að læsa sig í klæðningu utan á húsinu þegar hann var slökktur. Grunur leikur á því að kveikt hafi verið í.
Maður á sextugsaldri var handtekinn eftir að hafa brotist inn í hús við Vesturgötu í Reykjavík og reynt að stela þaðan tölvu og bókum. Maðurinn er enn í haldi lögreglu en verður að líkindum sleppt seinna í dag, þar sem mál hans telst upplýst að mestu.
Brotist var inn í íbúð við Grandagarð um hálf fjögur í nótt og þaðan stolið fartölvu. Innbrotsþjófurinn komst undan en lögreglan hefur einn mann grunaðan um verknaðinn. Unnið er að rannsókn málsins.
Þá voru tveir menn staðnir að því að reyna brjótast inn í vörugám í Kletthálsi á þriðja tímanum í nótt. Þeir höfðu reynt að brjóta upp lás á gámnum en komust ekki að vörunum sem í honum voru. Mennirnir voru handteknir á staðnum.
Undir morgun var brotist inn í raftækjaverslun í Faxafeni og þaðan stolið vörum. Óljóst er hversu miklum verðmætum innbrotsþjófunum tókst að komast með á brott. Sendibifreið sást aka frá vettvangi og er hennar nú leitað.