Íslendingar í Bretlandi hafa getað nálgast íslenskan fisk í sendiráðinu í London. Að undanförnu hefur fiskurinn verið seldur þeim sem hafa átt aur, en aðrir hafa fengið fiskinn gefins. „Það gengur alveg á birgðirnar og vel það,“ segir Sigurður Arnarson sendiráðsprestur í samtali við mbl.is.
„Í gegnum tíðina hafa íslensku fiskinnflutningsfyrirtækin á Humbrusvæðinu gefið okkur fisk sem íslenski kórinn hefur selt í ágóðaskyni fyrir starf kórsins,“ segir Sigurður.
Þegar fjármálakreppan hafi skollið á af fullum þunga í október hafi hann sett sig í samband við nokkra innflytjendur og spurt hvort sendiráðið gæti ekki fengið sendan fisk. „Sem við fengum í hvelli. [...] Svo er þetta selt þeim sem eiga pening, og þeir sem vilja fá gefins fá það gefins.“
Sigurður segir Íslendinga hafa komið undanfarna daga og vikur til að næla sér í fisk, s.s. ýsu.
Íslendingar eiga hauka í horni
Hann segir að nokkrir velunnarar hafi sett sig í samband við sendiráðið til að bjóða fram ýmiskonar aðstoð sem hafi reynst vel í því árferði sem nú ríki í efnahagsmálum. T.d. hafi íslenskur fasteignasali, sem hefur starfað í Bretlandi í árabil, boðist til að ráðleggja fólki. Þá hafi breskur atvinnurekandi, sem Íslendingur starfar hjá, haft samband við íslenska sendiráðið og boðist til að styrkja íslenska námsmenn fjárhagslega.
Mikill samhugur
„Við fögnuðum núna á sunnudaginn 25 ára afmæli íslenska safnaðarins í London og það komu yfir 260 manns. Það var gjörsamlega troðfull kirkja. Þarna var takturinn gefinn. Það var fólk að koma sérstaklega frá Hull til að hitta Íslendinga,“ segir Sigurður og heldur áfram: „Það er fólk að hafa samband og við erum líka að fylgjast með hvert öðru, og fólk er að styðja hvert annað á margvíslegan hátt,“ segir Sigurður í samtali við mbl.is.
Hann segir að nú verið sé að undirbúa stóra hátíð með íslenskum listamönnum sem mun fara 1. desember í Cadogan Hall í London. Þetta er samvinnuverkefni íslenska sendiráðsins í London, Íslendingafélagsins og íslenska safnaðarins.