Lúxusþyrla Magnúsar Kristinssonar, útgerðarmanns í Vestmannaeyjum og eiganda Toyota bílaumboðsins, er nú til sölu. Þetta kemur fram á fréttavef Suðurlands. Flestir kannast við þyrluna sem er auðþekkjanleg í loftinu af iðagrænum skrokknum, en Magnús hefur notað þyrluna vegna tíðra ferða milli lands og Eyja. Þyrlan er til afhendingar strax samkvæmt söluauglýsingu.
Vélin er auglýst hjá Helicopter Exchange og kemur þar fram að framleiðsluár hennar sé 1998 en hún hafi verið afhent ný árið 1999. Af myndum og lýsingu á síðunni að dæma er innrétting þyrlunnar afar glæsileg. Hún er græn sem fyrr segir, með gylltum og rauðum löndum, en innbyrðis er hún búin ljósdrapplitum leðursætum og gólfteppi í stíl. Milli farþegarýmis og stjórnklefa er rafknúin "límósínurúða" og gler vélarinnar er skyggt. Þá er að sjálfsögðu veitingageymsla um borð sem og hljómtæki með snertitakkabúnaði auk tveggja síma. Innréttingin er öll viðarskreytt með rósaviði og handföng gulli slegin.
Söluverð þyrlunnar er hinsvegar ekki tekið fram í auglýsingu.