Menntamálaráðherra geri hreint fyrir sínum dyrum

Kristinn H. Gunnarsson.
Kristinn H. Gunnarsson. mbl.is/Ómar

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, segir að menntamálaráðherra verði að gera rækilega grein fyrir aðkomu sinni að málunum er varða viðskiptabankana og yfirtöku ríkisins að þeim og ekki síður meðferð skuldanna í Kaupþingi. Þá varpar hann fram þeirri spurningu hvort ráðherra sé hæf til að fjalla um málefni viðskiptabankanna.

Kristinn lagði fram fyrirspurn til menntamálaráðherra á Alþingi í dag þar sem hann spyr hvort ráðherra telji „sig hafa fullt og óskorað hæfi til þess að koma að yfirtöku ríkisins á viðskiptabönkunum þremur og ákvörðunum er varða nýju bankana, sérstaklega Kaupþing?“

Hann bendir á í pistli á heimasíðu sinni að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra sé ein þeirra sem eigi hlut að þeim óeðlilegu viðskiptaháttum í tengslum við afskriftir skulda fyrrverandi stjórnenda hjá Kaupþingi „þar sem eiginmaður hennar er einn þeirra sem keypti hluti í Kaupþingi. Hún hefur þegar sagt opinberlega að allt verði upplýst og ekkert dregið undan.

Ég vil skora á hana að gera það nú þegar og upplýsa um fjárhæð lánsins og skilmála þess og hve mikið að því verður greitt. Ráðherra í ríkisstjórn getur ekki leynt neinu í þessum viðskiptum ef hann vill sitja áfram. Krafa um fullar upplýsingar fela ekki í sér neina afstöðu til viðskiptanna á þessu stigi, hvorki til né frá. Það verður metið þegar upplýsingarnar og öll málsatvik liggja fyrr,“ skrifar Kristinn. Heimasíða Kristins.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert