Skoðað hvort leyft verður að selja hluta húsa

mbl.is/Frikki

Fé­lags­málaráðuneytið skoðar hvort veita eigi Íbúðalána­sjóði og líf­eyr­is­sjóðunum leyfi til að eign­ast hlut í fast­eign­um lands­manna í stað þess að eig­end­ur þeirra verði tekn­ir til gjaldþrota­skipta. Hag­fræðing­arn­ir Gylfi Zoëga og Jón Daní­els­son hafa bent á þá leið til að bjarga fjár­hag föl­skyldna. Hug­mynd­in er nú meðal annarra sem ráðuneytið skoðar.

„Einnig er í skoðun að veita Íbúðalána­sjóði leyfi til að leigja þeim sem missa íbúðir sín­ar þær aft­ur,“ seg­ir Hrann­ar B. Arn­ars­son, aðstoðarmaður fé­lags­málaráðherra. Enn sé þó óljóst hvert leigu­verðið yrði. Það myndi lík­leg­ast miðast við verð á leigu­markaði.

Hrann­ar seg­ir enn óljóst hvaða leiðir verði farn­ar. „Við vinn­um eins hratt að lausn og við mögu­lega get­um.“

Jón og Gylfi settu hug­mynd­ina um að selja lán­veit­end­um hluta heim­ila og lækka þannig af­borg­un­ina fyrst fram í aðsendri grein í Morg­un­blaðinu og full­yrtu í Silfri Eg­ils á sunnu­dag að þeir hefðu fengið álit lög­fræðinga á því að þessi leið væri fær með einu penn­astriki, það er laga­breyt­ingu. Hrann­ar seg­ir ráðuneytið skoða hvaða lög­um þyrfti að breyta og bend­ir á að meðal ann­ars þyrftu líf­eyr­is­sjóðirn­ir leyfi til að eiga íbúðir.

Hrafni Magnús­syni, fram­kvæmda­stjóri Lands­sam­taka líf­eyr­is­sjóðanna, hugn­ast bet­ur að Íbúðalána­sjóði væri ein­um leyfi­legt að eign­ast hlut í hús­um lands­manna. „Líf­eyr­is­sjóðirn­ir eru marg­ir og mega ekk­ert gera nema taka við iðgjöld­um, ávaxta fjár­mun­ina og greiða út líf­eyri. Það er þeirra hlut­verk.“

Guðmund­ur Bjarna­son, fram­kvæmda­stjóri Íbúðalána­sjóðs, seg­ir vissu­lega góðra gjalda vert að reyna að hjálpa sem flest­um og nýj­um úrræðum sjóðsins sé nú beitt til þess. „En ef fleiri og kostnaðarsam­ari úrræði eru í far­vatn­inu verður einnig að gæta að því að sjóður­inn, og banka­stofn­an­ir, hafi bol­magn til að standa und­ir þeim. Vissu­lega er um rík­is­stofn­un að ræða og þar með rík­is­ábyrgð á skuld­bind­ing­um sjóðsins. Það er því rík­is­valdið, rík­is­stjórn og Alþingi, sem mæl­ir fyr­ir um hvert hlut­verk sjóðsins skuli vera,“ seg­ir hann.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert