Skortur á munaði

mbl.is

Skortur á gjaldeyri hefur almennt ekki hamlað kaupum matvöruverslana á innfluttum vörum. Að skipan stjórnvalda voru matvörur settar í forgang yfir þær innfluttu vörur sem Seðlabankinn útvegaði gjaldeyri til. Hins vegar er farið að bera á skorti á ýmissi matvöru og sérvöru sem ekki telst til nauðsynjahluta. Meðal þeirra eru t.d. ýmsir framandi ávextir sem ekki hafa hreyfst mikið í viðskiptum.

Viðmælendur blaðsins voru sumir hverjir sammála um að ef ekki færi að greiðast betur úr gjaldeyrisviðskiptum myndi verða skortur á æ fleiri vörutegundum í hillum verslana á næstu vikum og mánuðum. Þá hefur krafa erlendra birgja um staðgreiðslu valdið innlendum heildsölufyrirtækjum og matvöruverslunum vandkvæðum.

Vandi við innflutning á matvörum hefur hins vegar leitt til þess að sala á íslenskum vörum hefur aukist verulega að undanförnu og í verslunum má merkja stóraukið framboð á þeim í hillum og á gólfi, ekki síst drykkjar- og mjólkurvörum. Neyslumynstrið og innkaup neytenda eru því að breytast verulega í kreppunni.

Hagar reka verslanir Bónuss, Hagkaupa og 10-11, auk ýmissa sérvöruverslana. Finnur Árnason, framkvæmdastjóri Haga, segir að framboð á ýmsum vörum, sem hann nefnir jaðartegundir, hafi minnkað. Vörur sem ekki geti talist til brýnustu nauðsynja. Fyrirtækið hafi orðið að forgangsraða í innkaupum sínum eftir mikilvægi varanna.

„Almennt gengur vöruflæðið en við fáum ekki gjaldeyri fyrir sérvöru eða öðru en matvöru. Þar eru vandræðin meiri,“ segir Finnur.

Samkvæmt upplýsingum blaðsins hafa starfsmenn bankanna verið fengnir til að aðstoða Seðlabankann við að útvega gjaldeyri til fyrirtækja. Ákveðin forgangsröðun hefur verið sett á vörurnar og þeim raðað eftir mikilvægi og nauðsyn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka