Takmörkuð sannfæring fyrir varnarmálafrumvarpinu

mbl.is/Ásdís

Fjárlaganefnd fer nú yfir fjárlagafrumvarp fyrir árið 2009 með niðurskurðarhnífinn á lofti. Varnarmálastofnun er ein þeirra stofnana sem eru undir smásjánni en áætlað fjármagn til hennar er ríflega 1,4 milljarðar króna. Stærsta verkefni Varnarmálastofnunar er að reka ratsjárkerfið sem bandaríski herinn byggði upp á sínum tíma.

Þótt almenn samstaða sé um rekstur ratsjárkefisins virðist sem takmörkuð pólitísk sannfæring hafi verið fyrir varnarmálafrumvarpinu. Þannig hafa bæði Bjarni Benediktsson, formaður utanríkismálanefndar og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, vísað til þess að þegar niðurstaða hættumatsnefndar liggi fyrir gæti þurft að endurskoða hluta laganna. Ástæðan fyrir þessu er sú að frumvarpið varð til að undirlagi embættismanna í forsætis- og utanríkisráðuneyti, ekki stjórnmálamanna.

Nú heyrast þær raddir víða í stjórnkerfinu að svona verkefni hafi verið ásættanleg þegar vel áraði, en þegar þrengi að vakni spurningar um hvort hægt sé að vinna verkin með einfaldari og ódýrari hætti.

Í núgildandi fjárlögum eru áætlaðar 822 milljónir til reksturs Ratsjáreftirlitsins og sambærileg upphæð á að fara til þess á næsta ári. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefði verið hægt að sinna þessu eftirliti fyrir 3-500 milljónir á ári eða um helmingi lægri upphæð.

Þessi sparnaður hefði náðst fram með hagræðingu og að stofnanir eins og Flugstoðir tækju eftirlitið yfir en þær annast þegar umfangsmikið eftirlit fyrir bæði alþjóðlegt og innlent flug.

Eins og staðan er í dag er ratsjáreftirliti sinnt á tveimur stöðum, annars vegar hjá Varnarmálastofnun í Keflavík og hins vegar hjá Flugstoðum. Varnarmálastofnun er með svonefnda frumratsjá sem nemur bæði borgaralegt flug og herflugvélar. Einu skiptin sem reynir á hið síðarnefnda er þegar rússneskar sprengjuflugvélar fljúga nálægt landinu, sem þær hafa gert reglulega í rúmt ár. Flugstoðir þurfa hins vegar líka að fá þær upplýsingar til að tryggja öryggi borgaralegs flugs.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert