Kreppunni, sem Íslendingar glíma við um þessar stundir, svipar mjög til ástandsins í Finnlandi í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar, að sögn Jaakkos Kianders, forstöðumanns Hagfræðistofnunar launþegasamtaka Finnlands.
„Helsti lærdómurinn, sem Íslendingar geta dregið af finnsku kreppunni, er að óráðlegt sé að halda stýrivöxtum háum á krepputímum til að styðja við veikan gjaldmiðil,“ segir Kiander.
Finnska bankakreppan byrjaði á svipaðan hátt og sú íslenska. „Finnska markið hafði um langt skeið verið fest við gengi annarra gjaldmiðla. Í upphafi áttunda áratugarins voru svo ýmis höft á gjaldeyris- og fjármálamörkuðum fjarlægð. Þessar aðgerðir, sem og hátt gengi marksins, leiddu til mikils uppgangs í finnsku efnahagslífi og flæddi erlent fjármagn inn í landið.“ Líkt og á Íslandi jukust fjárfestingar til muna og verð á fasteignum hækkaði. Þá jókst skuldsetning heimila og fyrirtækja.
„Verkefni finnska seðlabankans var, ásamt öðru, að halda gengi gjaldmiðilsins innan settra marka. Þetta gekk ágætlega svo lengi sem erlendir fjárfestar höfðu trú á finnska hagkerfinu.“ segir hann.
„Árið 1989 tók að hrikta í stoðum Sovétríkjanna, sem voru mjög mikilvægur útflutningsmarkaður fyrir finnsk fyrirtæki. Fjárfestar tóku því að velta fyrir sér hvort efnahagslegar forsendur væru fyrir sterku gengi finnska marksins. Því gerðu spákaupmenn atlögur að finnska markinu.“
Finnski seðlabankinn brást við með því að hækka stýrivexti til að styðja við gengi marksins.
„Með þessu hófst tímabil mjög hárra stýrivaxta, sem varði í 3-4 ár. Þetta hafði afar slæm áhrif á heimili og fyrirtæki í landinu. Mörg þeirra höfðu verið skuldsett og þessi hækkun stýrivaxta varð þeim ofviða. Alls skrapp finnska hagkerfið saman um 13% á þremur árum.“ Þessi kreppa leystist ekki fyrr en árið 1993 þegar fastgengisstefnunni var aflétt og, það sem e.t.v. skiptir meira máli, stýrivextir voru lækkaðir á ný.
Telur Kiander að staða Íslands væri ekki endilega betri hefði evran verið gjaldmiðillinn í stað krónunnar. „Íslensku bankarnir hefðu þá átt jafnvel auðveldara með aðgengi að fjármagni og því hefði bankakerfið eftir sem áður orðið of stórt fyrir hagkerfi Íslands.“