Norskt fyrirtæki hefur pantað 100 tonn af súkkulaði frá Sælgætisgerðinni Freyju, það er tegundum sem heita Draumur, Djúpur og Hitt. „Við höfum selt þessar vörutegundir til Noregs áður en í miklu minna magni. Norðmenn eru svo hrifnir af þessu súkkulaði að fyrirtækið sá ástæðu til að kaupa meira,“ segir Ævar Guðmundsson, framkvæmdastjóri sælgætisgerðarinnar, sem einnig selur Svíum, Dönum og Færeyingum súkkulaðið sem Íslendingar sjálfir eru sólgnir í.
Sala á íslensku sælgæti hefur aukist að undanförnu en salan á erlendu sælgæti sem Freyja flytur inn hefur minnkað, að sögn Ævars sem bætir því við að búast megi við einhverri verðhækkun vegna hærra hráefnisverðs og gengisbreytinga.
Rúnar Ingibjartsson, matvælafræðingur hjá Nóa-Síríusi, segir Nóakonfektið verða 24 prósentum dýrara en í fyrra. „Það er síðan spurning hvort hækkunin lendi á neytendum eða hvort smásalarnir taki hluta hennar á sig.“