4.400 sagt upp í hópuppsögnum

Tæplega þrjú þúsund manns var sagt upp í hópuppsögnum í …
Tæplega þrjú þúsund manns var sagt upp í hópuppsögnum í október mbl.is/Skapti

Alls hefur yfir 4.400 manns verið sagt upp á árinu 2008 með hópuppsögnum. Stærstur hluti uppsagnanna barst í lok október eða um 67%, eða um 2950 manns frá 64 fyrirtækjum. Fram að því höfðu borist frá 0 til 4 tilkynningar í hverjum mánuði.

 Um 46% tilkynninganna voru vegna starfsmanna í mannvirkjagerð. Uppsagnir í fjármálastarfsemi, þar sem uppsagnir Landsbanka, Glitnis og Kaupþings vega þyngst, eru um 20% af tilkynningunum. Tæp 14% uppsagnanna koma úr verslunargeiranum og um 11% úr iðnaði, í flestum tilvikum tengdur mannvirkjagerð. Um 4% uppsagna er í sérfræðistarfsemi og útgáfustarfsemi og tæp 4% uppsagnanna eru úr flutningastarfsemi þar sem póstdreifing vegur þyngst. Loks voru 1% uppsagna úr ýmiskonar þjónustu, samkvæmt upplýsingum á vef Vinnumálastofnunar.

Um 93% uppsagnanna eru vegna starfsfólks á höfuðborgarsvæðinu en aðrar uppsagnir dreifast á Suðurnes, Vesturland Norðurland eystra og Suðurland.

Heildarfjöldi starfsmanna þeirra fyrirtækja sem tilkynntu uppsagnir er tæplega 11.000 og því eru þessi fyrirtæki sem um ræðir að segja upp um 28% starfsmanna sinna að jafnaði.

Mjög misjafnt er þó milli atvinnugreina hve hátt hlutfallið er. Þannig eru fyrirtæki í mannvirkjagerð að jafnaði að segja upp ríflega 42% sinna starfsmanna og er dreifingin allt frá 15% upp í 100%. Hlutfallið er svipað í flutningastarfsemi eða rúm 40%. Í iðnaði, sérfræðilegri starfsemi og ýmissi þjónustu er hlutfallið nálægt 35%, 20% í verslun og um 16% í fjármálastarfsemi.

Uppsagnirnar koma til framkvæmda allt upp í 6 mánuði. Upplýsingar um hvenær nákvæmlega einstakar uppsagnir koma til framkvæmda eru fremur óljósar, en þó má segja að á tímabilinu 1-3 mánuðir sé algengast, nema í fjármálastarfsemi þar sem um er að ræða tímabil sem nær yfir 3-6 mánuði. Flestar þessara uppsagna koma til framkvæmda um næstu mánaðarmót, og svo um áramót og um mánaðarmótin jan./feb. 2009.

Ástæður uppsagna eru nánast alltaf verkefnaskortur, fjárhagserfiðleikar og óvissan framundan. Margir eru því að segja upp til að búa sig undir erfiða stöðu eftir 2-3 mánuði og vonast til að geta endurráðið starfsfólk að einhverju marki áður en til starfsloka þeirra kemur ef verkefnastaða gefur tilefni til.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert