Hinn árlegi forvarnardagur verður haldinn í þriðja skiptið á morgun að frumkvæði forseta Íslands. Verður sérstök dagskrá haldin meðal 9. bekkinga í flestum grunnskólum landsins. Þeir sem standa að deginum eru ÍSÍ, UMFÍ, skátahreyfingin og samband íslenskra sveitarfélaga.
Fara fulltrúar þeirra í heimsóknir í skólana ásamt þeim sem láta sig forvarnarstarf ungmenna varða. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, heimsækir Húsaskóla kl. 8.20 og Varmársskóla kl. 9.00. Borgarstjórinn í Reykjavík, Hanna Birna Kristjánsdóttir, heimsækir Réttarholtsskóla kl. 8.30.
Dagskráin innan skólanna er byggð á þremur heilræðum samveru; þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi og seinkun þess að hefja áfengisneyslu sem rannsóknir hafa sýnt fram á að dugi best sem forvarnir gegn fíkniefnum.
Forvarnardagurinn er styrktur af lyfjafyrirtækinu Actavis.