Glitnir mun innheimta skuldir

Glitnir
Glitnir Friðrik Tryggvason

Í tilkynningu frá Nýja-Glitni segir að skuldir vegna hlutafjárkaupa starfsmanna og stjórnenda verði innheimtar af bankanum í samræmi við almennar reglur.

Yfirlýsing bankans er svohljóðandi: 

„Nýi Glitnir hefur yfirtekið öll lán til starfsmanna og stjórnenda bankans sem þeir tóku hjá gamla Glitni til að fjármagna kaup á hlutabréfum í gamla Glitni. Lánin verða innheimt í samræmi við almennar reglur bankans.

Lánin voru færð til Nýja Glitnis með ákvörðun stjórnar Fjármálaeftirlitsins sem fól í sér yfirtöku Nýja Glitnis á innlendri bankastarfsemi gamla Glitnis. Af hálfu Nýja Glitnis hafa engin lán vegna hlutabréfakaupa starfsmanna eða félaga í þeirra eigu verið felld niður eða afskrifuð né ábyrgð á slíkum skuldbindingum með öðrum hætti verið takmörkuð.

Eðli málsins samkvæmt getur stjórn Nýja Glitnis ekki fjallað um viðskipti einstakra starfsmanna enda bundin þagnarskyldu um allt er varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna.

Stjórn Nýja Glitnis.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert