Fjögurra hrossa er saknað úr heimahaga frá bænum Hofsstöðum í Hálsasveit í Borgarfirði, að því er kemur fram í frétt á skessuhorn.is.
Úthagi er ógirtur á milli bæjanna Úlfsstaða, Hofsstaða, Hellubæjar og Uppsala og nýttur af Hofsstaðabændum. Vel er hinsvegar girt í kringum þessi lönd.
Alls hafa fjögur hross horfið úr stóðinu, en í tvennu lagi. Í fyrra skiptið hurfu tvö folöld síðsumars en nú í lok október er tveggja hryssa saknað til viðbótar. Víðtæk leit hefur verið gerð að hrossunum bæði á landi og úr lofti. Segir í frétt Skessuhorns að eigandi þeirra, Eyjólfur Gíslason bóndi á Hofsstöðum, sé farinn að gruna að hrossunum hafi einfaldlega verið stolið.
„Ég get ekki lengur útilokað að um þjófnað sé að ræða,“ segir hann í samtali við Skessuhorn. „Í það minnsta er það mjög dularfullt að heimafædd og hagvön hross hverfi með þessu móti þar sem girðingar sem umlykja svæðið eru ágætlega traustar. Ég hef fínkembt svæðið bæði seint í ágúst í sumar eftir að folaldanna var saknað og aftur nú í síðustu viku. Leitarflug var síðan flogið síðastliðinn laugardag þar sem flogið var yfir landið, kíkt í alla skurði, nærliggjandi jarðir leitaðar og skoðað í stóð á nágrannabæjum.”