Undirbúningur að rekstri Keflavíkurflugvallar ohf. sem tekur við rekstri Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar um næstu áramót gengur vel. Fer hann annars vegar fram á vegum stjórnar félagsins og hins vegar stýrihóps samgönguráðuneytisins.
Björn Óli Hauksson rekstrarverkfræðingur var ráðinn forstjóri nýja félagsins og tók hann til starfa snemma í október. Frá stofnun félagsins á liðnu sumri hafa bæði stjórn félagsins og stýrihópur, sem samgönguráðuneytið skipaði, borið ábyrgð á undirbúningi að rekstri félagsins. Á vegum stýrihópsins voru skipaðir sex starfshópar sem hver um sig hefur undirbúið ákveðin svið rekstrarins svo sem ýmislegt er varðar stofnun félagsins, stofnefnahagsreikning, starfsmannamál, skipulagsmál, um samskipti við utanríkisráðuneytið og hernaðaryfirvöld og um verkefni félagsins, svo sem flugleiðsögumál, að því er fram kemur á vef samgönguráðuneytisins.
Meðal þess sem ákveðið hefur verið er að flugleiðsaga flytjist frá Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli til Flugstoða ohf. Þá munu starfsmenn lögreglustjóraembættisins á Keflavíkurflugvelli sem annast hafa öryggisgæslu flytjast til hins nýja félags en aðrir hópar sem starfað hafa hjá Flugmálastjórn og Flugstöðinni færast til Keflavíkurflugvallar ohf.