Mikilvægt að hugsa hlutina upp á nýtt

Þór Sigfússon
Þór Sigfússon mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

„Kreppa er móðir tækifæra og nýsköpunar, því í kreppu gefst færi á að hugsa hlutina upp á nýtt og beita skapandi hugsun, “ segir Þór Sigfússon, formaður Samtaka atvinnulífsins. Hann hvetur til þess að ríkisstjórn Íslands tileinki árið 2009 skapandi hugsun og nýsköpun.

„Borgarstjórn Reykjavíkur er þegar búin að hugsa út fyrir rammann. Þar hefur ný kynslóð vikið leiðindakarpi til hliðar og tekið upp náið samstarf á erfiðum tímum þvert á flokkslínur. Hvað með að gera það að reglu í stað þeirrar þrætulistar sem stunduð var í borgarstjórn um áratugaskeið?,“ spyr Þór Sigfússon.

Hann segir að Alþingi þyrfti sannarlega á sömu hugarfarsbreytingu  að halda þannig að uppgjör þings í þinglok snúist ekki alltaf um hver talaði mest.

Formaður SA bendir á að þrátt fyrir erfiða tíma og mögulega aukna ríkisforsjá verði að varast að öll svör við atvinnuleysi verði að finna hjá stjórnmálamönnum, að ein eða fáar atvinnugreinar verði allsherjar lausn á vanda íslensks atvinnulífs. Tækifærin verði að nýta og auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi.

„Það er ekki hagur neins að einhæfni ríki í atvinnumálum hérlendis. Við erum búin að reyna það og árangurinn var misjafn. Á tímum hafta og ríkisforsjár voru atvinnugreinar valdar út eftir því hvað stjórnvöldum hugnaðist. Þegar frelsi var aukið og dyr opnaðar breyttist þetta. Nú eigum við öflug fyrirtæki á fjölmörgum sviðum sem mynda nýjar og fjölbreyttar stoðir undir íslenskt atvinnulíf,“ segir Þór Sigfússon.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert