Niðurstaða samráðs um framkvæmdir við Miklubraut - Kringlumýrarbraut er að leggja áherslu á stokk á Miklubraut frá Snorrabraut/Rauðarárstíg austur fyrir gatnamót við Kringlumýrarbraut. „Niðurstaðan þýðir að áratuga deilum um gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar hafi lokið í sátt,“ segir Gísli Marteinn Baldursson borgarfulltrúi og formaður samráðshópsins sem hélt sinn lokafund í dag.
Lausnin gerir það mögulegt halda gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar í þeirri hæð sem þau eru nú, í stað þess að hækka þau í tveggja metra hæð. Breytingum á Kringlumýrarbraut er frestað en hana mætti leggja undir gatnamótin í jarðgöng síðar, að því er segir í tilkynningu.
„Við höfum í haust unnið markvisst að því að finna lausn sem bæði meirihluti og minnihluti í borgarstjórn, en þó aðallega íbúarnir á svæðinu, gætu fellt sig við, því allir voru sammála um að núverandi ástand gangi ekki,“ segir Gísli Marteinn.
Heildarkostnaður mun lækka um 6-6,5 milljarða kr. með frestun aðgerða á Kringlumýrarbraut. Áætlaður viðbótarkostnaður við lengingu stokks á Miklubraut er 1,5-2 milljarðar kr. Heildarkostnaður við stokkinn verður því 7,5-8 milljarðar kr.
„Niðurstaðan er stokkur á Miklubraut sem fer undir Kringlumýrarbraut og undir gatnamótin við Lönguhlíð og kemur upp vestan Rauðarárstígs,“ segir Gísli Marteinn. „Þar með streymir umferðin sem ekki á erindi í Hlíðarnar undir yfirborðið og ofanjarðar verður hæg hverfisumferð þar sem sérstaklega verður hugað að gangandi og hjólandi umferð og öryggi barna og fullorðinna.“
Sátt er um þessa lausn milli flokka í borgarstjórn Reykjavíkur og í samráðshópnum voru einnig fulltrúar íbúa í Háaleitishverfi og Hlíðahverfi. Íbúar Háaleitis leggja áherslu á að stokkurinn nái austur fyrir Grensásveg og lögðu bókun fram um það á fundinum nú síðdegis.
Niðurstaða þessa samráðs verður nú kynnt fyrir Vegagerðinni og lögð fyrir borgarráð.