Þórdís Bachman var svo forsjál að opna gjaldeyrisreikning til að greiða af gengisbundnu húsnæðisláni. Hún hefur samviskusamlega keypt japönsk jen og evrur með reglubundnu millibili til að standa straum af láninu á gjalddaga og jafna út sveiflur.
Þan sjöunda október ætlaði hún að taka út af gjaldeyrisreikningi sínum en það tókst ekki enda lokað á allar alþjóðlegar símgreiðslur til Íslands. Upphæðin samsvaraði einu og hálfu ári af afborgunum af láninu. Alls var um að ræða tvær millifærslur frá útibúi Landsbanka við Hagatorg, daginn sem hann féll til útibús Kaupþings á Hótel Sögu. Báðar millifærslurnar voru týndar í tíu daga en skiluðu sér inn á reikninginn hjá Kaupþingi átjánda október eigandanum til mikillar gleði. Þegar Þórdís mætti nokkrum dögum síðar til að greiða af láninu voru peningarnir farnir. Skýringin sem hún fékk var að skilanefnd Landsbankans hefði afturkallað millifærsluna.
Fyrsta ferð peningana sem tók tíu daga var frá útibúi Landsbankans hjá Háskólabíói yfir í útibú Kaupþings á Hótel sögu sem er í næsta húsi. Seinni ferðin var þessa sömu leið en peningarnir eru núna týndir og óvíst hvenær þeir finnast. Þórdís segir að það sé ekki hægt að fá að tala við skilanefnd enda sé það fyrirbæri óskiljanlegt venjulegu fólki,. Svona eins og galdrakarlinn í Oz.
Eigandinn segist engin svör hafa fengist um hvort eða hvenær peningarnir verði greiddir inná reikninginn.