Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í morgun tæplega þrítugan mann í 45 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir bensínþjófnað. Maðurinn dældi í þrígang eldsneyti á bifreið á bensínafgreiðslustöðvum og ók á brott án þess að greiða fyrir það. Samtals stal maðurinn eldsneyti fyrir 7.508 krónur.
Hann hefur áður hlotið dóma fyrir fjársvik, líkamsárás, hótanir og eignaspjöll og hefur að auki gengist undir sektargerðir vegna ávana- og fíkniefnalagabrota. Þann 25. ágúst 2006 var maðurinn dæmdur í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir ávana- og fíkniefnalagabrot og bensínþjófnað. Með broti sínu nú rauf maðurinn skilorð þess dóms.