Skuldir úr 12 í 26 milljarða

Hitaveita Suðurnesja á í erfiðleikum með að fjármagna starfsemi sína. …
Hitaveita Suðurnesja á í erfiðleikum með að fjármagna starfsemi sína. Þá hafa skuldir hækkað um 54 prósent í íslenskum krónum. mbl.is

Heildarskuldir Hitaveitu Suðurnesja hafa vaxið úr tólf milljörðum í ársbyrjun í tæplega 26 milljarða nú. Nemur hækkunin á lánum fyrirtækisins í krónum rúmlega 100 prósentum. Lánin eru öll í erlendri mynt. Forsvarsmenn fyrirtækisins funduðu í morgun með fulltrúum í iðnaðarnefnd og kynntu stöðu fyrirtækisins fyrir nefndarmönnum.

Júlíus Jón Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja, segir stöðu fyrirtækisins vera alvarlega eins og flestra fyrirtækja í landinu. „Lánafyrirgreiðsla fyrir okkur er lokuð í augnablikinu og það er líklegt að hún verði lokuð út árið, hið minnsta. Hver einasti dagur í stöðunni sem hér er komin upp í gjaldeyrismálum er nánast óbærilegur. Það segir enginn ábyrgur aðili að þetta vandamál þurfi ekki að leysast á morgun í síðasta lagi.“

Framkvæmdir í uppnámi

Eins og greint hefur verið frá í Morgunblaðinu undanfarna daga og vikur standa orkufyrirtækin í landinu illa vegna þess hversu erfitt aðgengi að lánsfé er. Almennur rekstur fyrirtækjanna er þó í stöðugum og góðum farvegi. Samkvæmt heimildum mbl.is hafa öll fyrirtækin leitað til fjölmarga banka erlendis með lánafyrirgreiðslu í huga en allt hefur komið fyrir ekki. Erlendir bankar neita að lána íslenskum fyrirtækjum, hvort sem þau eru í opinberri eða einkaeigu.

Júlíus segir augljóst mál að Hitaveitan geti ekki þolað erfiða fjárhagsstöðu vegna veikingar krónunnar lengi, ef lánamarkaðir opnast ekki. Framkvæmdir sem fyrirtækið hefur áætlað að fara í, meðal annars stækkun á Reykjanesvirkjun vegna álversframkvæmda í Helguvík, verða ekki að veruleika ef ekki verður leyst úr fjárhagsstöðunni á næstu vikum og mánuðum. Sérstaklega þarf að klára kaup á nýrri túrbínu í virkjunina sem kostar tvo til þrjá milljarða. „Ég tel mjög mikilvægt að leysa úr þessari stöðu sem upp er komin, þannig að framleiðslugreinar í landinu sem þurfa mikla orku geti starfað miðað við þau áform lagt var upp með,“ segir Júlíus.

Undirliggjandi rekstur traustur

Þrátt fyrir að lokun lánamarkaða og mikil hækkun skulda í krónum talið skapi mikil vandamál er daglegur rekstur í góðu horfi að sögn Júlíusar. Tekjur í erlendum gjaldeyri hækka umtalsvert vegna veikrar stöðu krónunnar líkt og skuldirnar, en stór hluti heildartekna Hitaveitunnar er tengdur álverði. Þrátt fyrir að heimsmarkaðsverð á áli hafi lækkað mikið undanfarna þrjá mánuði, þá er arðsemi af orkusölunni vel ásættanleg að sögn Júlíusar og skapar fyrirtækinu traustar og stöðugar tekjur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert