Alfarið á ábyrgð ríkisstjórnar

Steingrímur J. Sigfússon segir málið alfarið á ábyrgð stjórnvalda.
Steingrímur J. Sigfússon segir málið alfarið á ábyrgð stjórnvalda. Ómar Óskarsson

„Þetta mál er alfarið rekið á ábyrgð ríkisstjórnarinnar sem hefur beint ákveðnu verklagi til skilanefnda og tímabundinna bankastjórna, um hvernig skuli standa að málum,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, um 200 milljarða kaup nýju ríkisbankanna á verðlausum eða verðlitlum skulda- og hlutabréfum í peningamarkaðssjóðunum.

Eins og greint var frá í Morgunblaðinu í dag settu nýju ríkisbankarnir 200 milljarða króna inn í peningamarkaðssjóði Glitnis, Landsbankans og Kaupþings áður en borgað var út úr þeim. Greitt var fyrir bréfin með hluta af eigin fé bankanna. Eigið fé nýju ríkisbankanna nemur um 385 milljörðum króna.

Steingrímur segir það vera álitamál hvers vegna aðkoma Alþingis að þessu máli var ekki nein. „Við höfum enga aðkomu að þessu máli. En það er orðið ljóst að staða mála er grafalvarleg, eins og upplýsingar sem smá saman eru að koma í ljós, sýna. Það er áleitin spurning hvaða stjórnskipulegu stöðu þetta mál hefur þegar horft er til þess hvernig farið er með almannafé. Ég er hugsi yfir þeirri stöðu sem upp er komin og það liggur í augum uppi að ráðherrar sem bera ábyrgð á málum verða að svara fyrir þessar aðgerðir.“ 

Ekki hefur enn verið greitt út úr peningamarkaðssjóðunum hjá BYR, SPRON, MP fjárfestingabanka og Íslenskum verðbréfum. Steingrímur segir ríkið þurfa að hafa aðkomu að málefnum sjóða þeirra, með sama hætti og gert var í tilfelli bankanna sem nú eru komnir í þrot, til þess að tryggja að fyllsta jafnræðis sé gætt. „Það er líka algjört grundvallaratriði að jafnræði sé gætt þegar almannafé er notað. Eigendur fjármuna sem hafa verið settir í peningamarkaðssjóðina verða að geta gert þá kröfu að jafnræði sé ríkjandi í þessum málum. Ekki dregur úr þörfinni á því þegar horft er til þess að um ævisparnað þúsunda Íslendinga er að ræða.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert