AP fréttastofan heldur því fram að framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi samþykkt að veita Íslandi 2,1 milljarðs dala lán. Samkvæmt upplýsingum úr forsætisráðuneytinu er þetta ekki á rökum reist enda verður ekki fjallað um lánið í framkvæmdastjórninni fyrr en á mánudag.
Segir AP að þetta þýði að Ísland fái strax 833 milljónir dala að láni en lánið sé til tveggja ára. Lánveitingin þýði að Ísland muni fá aðstoð frá öðrum norrænum ríkjum sem hafa lýst því yfir að þau séu viljug til þess að aðstoða Íslendinga.
AP fréttastofan hefur eftir framkvæmdastjóra IMF, Dominique Strauss-Kahn, að Íslendingar hafi lagt fram metnaðarfull markmið um uppbyggingu efnahagslífsins á ný. Þar komi meðal annars fram hvernig hægt verði að byggja upp traust á bankakerfið á ný og stöðva gengissveiflur krónunnar með hörðum þjóðhagslegum aðgerðum.