Björgólfur íhugar að selja West Ham

Björgólfur Guðmundsson
Björgólfur Guðmundsson Þorkell Þorkelsson

„Björgólfur Guðmundsson er að endurskoða allt eignasafn sitt,“ segir Ásgeir Friðgeirsson, talsmaður Björgólfs og varaformaður stjórnar enska knattspyrnuklúbbsins West Ham, spurður um vaxandi þrýsting á Björgólf að selja fótboltafélagið.

Vefrit Daily Mail sagði frá auknum söluþrýstingi af vef sínum rétt eftir miðnætti í nótt að breskum tíma. Björgólfur hefði vart efni á að eiga félagið öllu lengur. Ásgeir bendir á að í fréttinni sé einnig ritað að klúbburinn sé ekki verr settur en fyrir þrot eignarhaldsfélags Björgólfsfeðga Samsonar, sem átti ríflega 40 prósenta hlut í Landsbankanum. Í fréttinni stendur að þar sem Björgólfur greiddi reiðufé fyrir West Ham sé honum frjálst að selja þegar honum hentar.

„Í ljósi stöðu Björgólfs Guðmundssonar er hann að sjálfsögðu að endurskoða allt sitt eignasafn, en hvort að það þýði að menn ætli að selja eða eiga félagið áfram liggur ekki fyrir,“ segir Ásgeir. Það skipti máli hvað boðið sé í félagið.

„Það liggur hins vegar fyrir að fjöldi manna hefur leitað til félagsins og þóst vita af einhverjum sem séu áhugasamir en við höfum ekki verið að talað við þá,“ segir Ásgeir.

„Við erum afskaplega rólegir. Það er ekki verið að selja klúbbinn í dag og ekki á morgun. Verið er að skoða þessar eignir í ljósi annarra eigna og sú endurskoðun tekur sinn tíma og menn skoða tækifærin í stöðunni. Það hefur ekki verið tekin ákvörðun. Þannig er það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert