Björk vill að Ísland gangi í ESB

Björk Guðmundsdóttir
Björk Guðmundsdóttir mbl.is/hag

Björk Guðmundsdóttir sagði í viðtali í Brussel í dag að Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu til þess að verja efnahag landsins og vekja athygli á umhverfismálum. „Eins og staðan er núna þá virðist það vera eina leiðin.”

 Björk er stödd í Brussel til að kynna herferðina Náttúra og umhverfismál á Íslandi. Mun hún taka þátt í umræðu á ráðstefnu um umhverfismál þar í borg ásamt Margot Wallstrom, varaforseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Mary Robinson, fyrrum forseta Írlands.

 Björk sagði á blaðamannafundi í dag að íslenskir kaupsýslumenn og sérfræðingar hafi tjáð henni að innganga í ESB ætti að vera forgangsmál hjá stjórnvöldum og þátttaka í myntbandalagi Evrópu.

Á fundinum fordæmdi Björk arðrán íslenskra náttúruauðlinda af hálfu stórfyrirtækja líkt og Alcoa og Rio Tinto. Sagði hún þau njóta stuðnings íslenskra stjórnvalda til þess.

Björk sagði jafnframt að efnahagskreppan mætti ekki verða Íslendingum skálkaskjól til að auka losun gróðurhúsalofttegunda.

„Ísland fer fram úr því hámarki sem ákveðið var í Kyoto bókuninni ef álverin á Bakka og í Helguvík verða byggð. Ég tel að Ísland verði að endurskoða afstöðu sína í loftslagsmálum ef við ætlum að eiga vinsamleg samskipti við aðrar þjóðir,” sagði Björk í Brussel.

Afsané Bassir-Pour, forstjóri UNRIC kynnti á fundinum væntanlega Evrópuherferð upplýsingaskrifstofunnar í umhverfismálum „CoolPlanet2009”. Björk og Náttúruhreyfingin komu fram á fundinum sem fyrsta umhverfis-framtakið sem vakin er athygli á herferðinni, að því er segir í tilkynningu frá SÞ.

Björk Guðmundsdóttir gerði fjármálakreppuna að umtalsefni. „Óttaleysi er yndislegur þáttur í þjóðarkarakter Íslendinga og áhættufíkn sem er svo mikil að jaðrar við fífldirfsku. Ég er hins vegar ekki viss um að þessi einkenni eigi heima á hlutabréfamarkaðnum. Hins vegar kemur þetta sér vel í tónlist og nýsköpun,” að því er segir í tilkynningu frá SÞ.

Hún sagðist óska þess að Ísland yrði sjálfbærara og sköpunarglaðara. „Við ættum að frekar að laga okkur að tuttugustu og fyrstu öldinni en þeirri nítjándu. Ísland gæti byggt færri, smærri og grænni virkjanir. Við ættum að nota kreppuna til að verða algjörlega sjálfbær. Við ættum að kenna heiminum að beisla jarðhitaorku. Uppbyggingin tekur kannski lengri tíma og arðurinn skilar sér síðar en þetta er traust og áreiðanlegt og stendur af sér rússibanareið Wall Street og álmarkaðarins,” samkvæmt tilkynningu.

Sjá nánar

Vefur Náttúru 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert