Frumvarp um ábyrgðarmenn var lagt fram á Alþingi í dag. Frumvarpið lýtur m.a. að því að mikilvægt að afnema það að þriðji aðili sé gerður ábyrgur fyrir viðskiptum annarra, enda geti afleiðingarnar oft verið fjölskyldum og samfélaginu í heild afar íþyngjandi.
Að frumvarpinu standa þingmenn úr öllum flokkum en fyrsti flutningsmaður er Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.
Meðal helstu nýmæla í frumvarpinu er að fasteign ábyrgðarmanns, þar sem hann heldur heimili, skal undanþegin aðför og að gjaldþrotaskipta verður ekki krafist á búi ábyrgðarmanns að greindum skilyrðum. Eru þessi nýmæli einskorðuð við persónulegar ábyrgðir en eiga ekki við þegar ábyrgðarmaður veitir sérstaka veðheimild í fasteign sinni. Þess háttar vernd á sér fyrirmynd í rétti annarra þjóða og hefur verið rökstudd með vísan til þeirrar samfélagslegu upplausnar sem fylgir því þegar fjölskylda ábyrgðarmanns á sér ekki lengur samastað.
Auk Lúðvíks eru meðflutningsmenn formenn þingflokka Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Frjálslynda flokksins, formaður Framsóknarflokksins og formenn viðskiptanefndar og efnahags- og skattanefndar.
„Við endurreisn bankakerfisins er mikilvægt að afnema þann séríslenska sið ábyrgðarmannakerfisins að þriðji aðili sé gerður ábyrgur fyrir viðskiptum annarra enda afleiðingarnar oft verið fjölskyldum og samfélaginu í heild afar íþyngjandi,“ að því er segir í tilkynningu.