Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi bresk stjórnvöld harðlega fyrir beitingu hryðjuverkalaga gegn Landsbankanum, á fundi þingmannanefndar um Norðurskautsmál sem haldin var í Östersund í Svíþjóð í dag.
Á fundinum voru saman komnir þingmenn frá öllum Norðurlöndunum, Kanada, Rússlandi og Evrópuþinginu.
Sigurður Kári sagði að fyrir því væru engin fordæmi að aðildarríki NATO beiti hryðjuverkalögum gegn öðru NATO ríki og í raun sé um misbeitingu laganna að ræða, þar sem algjörlega er horft framhjá upprunalegum tilgangi þeirra.
Með beitingu laganna gegn Íslandi og Íslendingum hafi bresk stjórnvöld sett þjóðina í hóp með Talíbönum, hryðjuverkasamtökunum al-Qaeda, Norður-Kóreu, Íran og Súdan sem Bretland hafði áður beitt sambærilegum aðgerðum gegn. Slíkum aðgerðum lýsti Sigurður Kári sem fullkomlega óviðunandi.
Hann benti enn fremur á að í öðrum ríkjum þar sem íslenskir bankar hafa starfrækt útibú hafi ríkisstjórnir unnið faglega með íslensku bönkunum við að leysa þau vandamál sem komið hafa upp í kjölfar fjármálakreppunnar. Í framhaldinu hvatti hann þingmenn aðildarríkjanna til að koma á framfæri sambærilegri gagnrýni gagnvart breskum stjórnvöldum og misbeitingu laganna.