IKEA hækkar verð um 25%

mbl.is/Eyþór


Frá og með deginum í dag hækkar verð að meðaltali um 25% hjá IKEA. Þetta er í fyrsta sinn í sögu fyrirtækisins sem falla verður frá verðtryggingarstefnu þess. IKEA hefur frá stofnun tryggt viðskiptavinum sínum óbreytt vöruverð frá 1. september til 15. ágúst ár hvert eða út gildistíma IKEA-bæklingsins.

Ytri aðstæður sem einkennst hafa af afar neikvæðri gengisþróun, gerir að verkum að fyrirtækið sér sig nauðbeygt að grípa til slíkrar verðhækkunar.
Um leið og gengisþróunin gefur tilefni til lækkunar, verður vöruverð lækkað í samræmi við lágverðstefnu fyrirtækisins, að því er segir í tilkynningu.

Einhugur um að reyna að þreyja þorrann

Að sögn Þórarins H. Ævarssonar, framkvæmdastjóra IKEA, er verið að grípa til aðgerðar sem á sér ekki fordæmi í sögu fyrirtækisins. Um lægstu mögulegu hækkun sé að ræða, þó að hún nemi á heildina litið um 25% og sé það lýsandi fyrir þær óvægnu aðstæður sem íslensk fyrirtæki eru að takast á við.

„Vöruverð breytist mismikið á milli einstakra vöruliða og vöruflokka, að jólavörum undanskildum, en verð á þeim verður óbreytt. Verðbreytingarnar munu taka gildi á næstu dögum. Sú atburðarás sem IKEA hefur staðið frammi fyrir undanfarið misseri er í hnotskurn, að gengi á evru, sem er sú mynt sem innkaupaverð fyrirtækisins miðast við, hefur hækkað um 90% á einu ári, þar af um meira en 40% frá því verðútreikningar fyrir 2009 IKEA-bæklinginn voru gerðir og um 35% frá því að bæklingurinn kom út.

Þórarinn segir af þessum tölum ljóst, að verðhækkunin dugar ekki fyrir því gengistapi sem fyrirtækið er að verða fyrir. Á hinn bóginn sé einhugur innan IKEA um að þreyja þorrann, í þeirri von að gengisskráning íslensku krónunnar komist senn í eðlilegt horf," að því er segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert