IMF-beiðni frestað

Geir Haarde forsætisráðherra.
Geir Haarde forsætisráðherra. mbl.is/RAX

Geir sagði í ræðu í dag, í umræðum um afkomu heimilanna, að útlitið framundan í efnahagsmálum væri dökkt og að Íslendingar mættu búast við miklum erfiðleikum. Erfitt væri að segja hversu langur tími myndi líða þar til útlitið færi að skána, en vonir standi til þess að það gerist í byrjun árs 2010.

Geir sagði að talið væri að einkaneysla myndi dragast saman um fjórðung á næsta ári og kaupmáttur myndi minnka um tólf prósent. „Það eru erfiðar tímar framundan og ástandið á atvinnumarkaði. Ég vil biðja fólk um að beina kröftum sínum í jákvæðari áttir og ég fullvissa fólk um það, að ríkisstjórn Íslands mun gera allt sem í hennar valdi stendur til að lágmarka tjón þjóðarinnar vegna bankahrunsins og aðstoða fólkið í landinu við að komast í gegnum þá brimskafla sem myndast hafa,“ sagði Geir í ræðu sinni í morgun.

Stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins IMF tekur fyrir aðstoðarbeiðni Íslands á mánudaginn, eins og áður sagði, en til stóð að það myndi gerast á morgun. Geir sagði ennfremur að íslensk stjórnvöld þyrftu lengri tíma til þess að ganga frá lánum frá öðrum ríkjum. Fyrr væri ekki hægt að taka fyrir lánaumsókn hjá stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Rætt hefur verið um að Ísland fái tveggja milljarða dollara lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, eða sem jafngildir um 260 milljörðum króna að núvirði.

Geir sagði að samkomulag íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins yrði gert opinbert um leið og öllum formkröfum hefur verið fullnægt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert