Miklar hækkanir á matvöru

mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Miklar hækkanir voru á vörukörfu ASÍ á milli verðmælinga verðlagseftirlitsins í september og október (39. og 44. vika). Karfan hækkaði á þessu fjögurra vikna tímabili um 5%-13% í öllum verslunarkeðjum, að Hagkaupum og 10-11 undanskildum. Þar hækkaði karfan um u.þ.b 2-3%.

Miklar hækkanir eru áberandi í flestum vöruflokkum körfunnar en mjólkurvörur og ostar hækka minnst.

Verð á vörukörfu ASÍ hækkaði mest á milli mælinga í Nettó um 12,7%, í
Samkaupum-Strax um 12,5% og í Kaskó um 10,6%. Í Samkaupum-Úrval nam hækkunin 8,1%, í Bónus 7,3%, Krónunni 6,5% og í 11-11 hækkaði vörukarfan um 6,7%.

Verðlagseftirlitið mælir breytingar á verði vörukörfu sem getur endurspeglað almenn innkaup meðalheimilis. Vörukarfa ASÍ inniheldur allar almennar mat- og drykkjarvörur, t.d. brauðmeti, morgunkorn, pasta, kjöt, fisk, grænmeti, ávexti, pakkavörur, kaffi, gos, safa, auk hreinlætis- og snyrtivara. Við samsetningu vörukörfunnar voru hafðar til hliðsjónar vogir Hagstofunnar sem notaðar eru til útreiknings á vísitölu neysluverðs. Vogirnar segja til um hversu stór hluti tilteknir vöruflokkar eru af neyslukörfu meðalheimilis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert