Nóvemberáskorunin

Stjórnarráðið.
Stjórnarráðið. mbl.is/Sverrir

Hópur fólks af ólíkum vettvangi í atvinnulífinu og með ólíkan bakgrunn í stjórnmálum hefur samið áskorun til íslenskra stjórnvalda þar sem krafist er brýnna aðgerða í efnahagsmálum og utanríkismálum í ljósi þeirrar afar erfiðu stöðu sem komin er upp í íslensku samfélagi.

Ályktunin hefur hlotið nafnið „Nóvemberáskorunin“. Hópurinn bendir á að nú séu örlagatímar í sögu íslensku þjóðarinnar. Hann vill knýja ráðamenn til tafarlausra aðgerða varðandi þessi brýnu viðfangsefni áður en nóvember er liðinn

Skorað er á alla þá sem eru sammála efni áskorunarinnar til að sýna stuðning sinn í verki.

Áskorunin er eftirfarandi:

„Íslendingar hafa orðið fyrir þungbæru áfalli. Afleiðingarnar láta engan ósnortinn. Einstaklingar, fjölskyldur og fyrirtæki eru dæmd til að bera þungar byrðar, hvort sem þau áttu sök á óförunum eða ekki. Þjóðin þarf á vegvísi að halda sem markar leiðina til framtíðar. Við krefjumst þess:

- að íslensk stjórnvöld lýsi því yfir með afgerandi hætti að þau ætli að taka upp viðræður við Evrópusambandið um fulla aðild og upptöku evrunnar svo skjótt sem auðið er. Kanna þarf af alvöru hvaða valkosti þjóðin hefur í stöðunni; hún á rétt á að kjósa beint og milliliðalaust um Evrópumálin.

- að íslensk stjórnvöld setji fram skýra efnahagsstefnu og skipi strax nýja, faglega yfirstjórn Seðlabanka Íslands. Á alþjóðavettvangi eru Íslendingar rúnir trausti á sviði efnahags- og peningamála; senda þarf ótvíræð skilaboð um að þar verði snúið við blaðinu.

- að Alþingi mæli með lögformlegum hætti fyrir um gagngera úttekt, undir forystu erlendra aðila, á aðdraganda þeirrar kreppu sem Íslendingar standa frammi fyrir og þeim ráðstöfunum sem hafa verið gerðar í framhaldi af hruni íslensku bankanna. Tryggja þarf réttlæti; sagan má ekki endurtaka sig.“

Ályktunin er þegar aðgengileg á síðunni askorun.blogspot.com og innan fárra daga verður vefsíðan www.novemberaskorunin.com opnuð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert