Hitt Húsið, Neytendasamtökin og Reykjavíkurborg hafa tekið höndum saman og ætla að bjóða ungu fólki á aldrinum 16-25 ára upp á ókeypis og óháða fjármálafræðslu á mannamáli.
Verkefnið ber nafnið „Klár í kreppu?“ og að námskeiði loknu eiga þátttakendur að vera færir um að stjórna eigin fjármálum á ábyrgan hátt.
Námskeiðið er bæði fyrir þá sem að eru illa staddir í fjármálum og fyrir þá sem vilja fræðast um fjármál almennt í forvarnarskyni. Sérstaða verkefnisins er sú að hér er verið að bjóða krökkunum upp á óháða fjármálafræðslu en hingað til hefur slík ráðgjöf vanalega verið veitt af bönkum eða öðrum fjármálafyrirtækjum sem hafa beinan ávinning af því að ráðleggja fólki að notast við sína þjónustu, samkvæmt tilkynningu.