Stjórn Rauða kross Íslands hefur samþykkt að veita 20 milljónum króna úr neyðarsjóði félagsins til einstaklingsaðstoðar í desember. Þetta er meðal annars gert til að mæta þörf þess fjölda fólks sem hefur farið illa út úr efnahagsþrengingum undanfarinna vikna og þarf sérstaklega á aðstoð að halda fyrir jólin.
Fjármagnið úr neyðarsjóði skiptist milli allra 50 deilda Rauða krossins um allt land miðað við íbúafjölda. Deildir Rauða krossins hafa um árabil unnið að úthlutun nauðþurfta fyrir jólin. Á ýmsum stöðum á landinu starfar Rauði krossinn í samvinnu við mæðrastyrksnefndir, Hjálparstarf kirkjunnar og fleiri aðila.
Fleiri símtöl í hjálparsímann
Þá eru deildir Rauða krossins víða um land í samvinnu við ríki og sveitarfélög um hvernig best megi bregðast við þeim vanda sem steðjar að fólki nú á næstu mánuðum þegar áhrifa efnahagsástandsins fer að gæta enn meira, að því er fram kemur í tilkynningu.
„Hjálparsíminn 1717 hefur leikið stórt hlutverk í fyrstu viðbrögðum Rauða krossins vegna efnahagskreppunnar, og hefur fjöldi innhringinga aukist úr um 50 símtölum á dag í rúmlega 70 síðan í lok september. Þá hafa Rauða kross deildir á höfuðborgarsvæðinu boðið fólki endurgjaldslaust upp á viðamikla fræðslu í sálrænum stuðningi og hvernig megi bregðast við streitu vegna ástandsins og er ráðgert að halda því starfi áfram. "