Sjö skip úti fyrir Stykkishólmi

Sjö skip eru nú á svipuðumk slóðum úti fyrir Stykkishólmi …
Sjö skip eru nú á svipuðumk slóðum úti fyrir Stykkishólmi og bíða þess að geta hafið síldveiðar. mbl.is/Kristján

„Ætli við byrjum ekki veiðarnar um leið og birta tekur,“ segir Árni Kristjánsson, stýrimaður á Júpiter. Sjö skip bíða þess nú að geta byrjað síldveiðar úti fyrir Stykkishólmi. „Við förum inn á pollana, eins og við köllum, þegar aðstæður leyfa,“ segir Árni.

Síldveiðiskipin Ásgrímur Halldórsson, Hákon, Bjarni Ólafsson, Hoffell, Kap, Jóna Eðvalds og Júpiter eru nú öll saman komin á svipuðum slóðum úti fyrir Stykkishólmi og bíða þess að geta hafið veiðar. Í fyrra voru mörg síldveiðiskip við veiðar úti fyrir Grundarfirði en nú hefur síldin fært sig um set. Þar mokveiddist á litlu svæði.

Árni segir síldina dreifa sér í myrkri en aðstæður til veiði verði góðar um leið og birta tekur. Þá safnist síldin saman í torfur. „Þetta er eiginlega bara níu til fimm vinna,“ segir Árni. „Í fyrra hélt síldin sig á litlu svæði við Grundarfjörð. Þar var mjög gott að eiga við aðstæður. Vertíðin í fyrra var mjög þægileg og þessi stefnir í að vera það líka,“ segir Árni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert