Spá 10% atvinnuleysi

Seðlabankinn spáir 10% atvinnuleysi
Seðlabankinn spáir 10% atvinnuleysi

Verðbólgumarkmið Seðlabankans hefur beðið hnekki og tæpast verður haldið áfram á grundvelli þess eins á næstu mánuðum. Þetta kemur fram í nýútgefnum Peningamálum Seðlabanka Íslands. Þar er því spáð að atvinnuleysi muni aukast og er áætlað að það muni nema 10% vinnuaflsins í lok næsta árs.

Takist hins vegar að ná markmiði um stöðugt og hærra gengi en verið hefur undanfarnar vikur eru horfur á að verðbólga geti hjaðnað tiltölulega hratt og vextir í kjölfarið, einkum ef samningar takast um óbreytta kjarasamninga.

Spá rúmlega 20% verðbólgu

„Umhverfi peningamála hefur gjörbreyst á fáeinum vikum eftir greiðsluþrot helstu fjármálafyrirtækja á Íslandi. Mikilvægar miðlunarleiðir peningastefnunnar urðu að miklu leyti óvirkar og verulegir hnökrar hafa verið á greiðslumiðlun við útlönd.

Gengi krónunnar féll því mikið og til varð tvöfaldur gjaldeyrismarkaður, annars vegar innlendur þar sem gjaldeyrir var skammtaður samkvæmt forgangslista eftir tilmælum Seðlabanka Íslands og óformlegur markaður, þar sem gengið réðst í takmörkuðum og ógagnsæjum viðskiptum.

Raungengi krónunnar er orðið mun lægra en fær staðist til lengdar. Fyrstu áhrifa gengislækkunarinnar gætti í október, þegar tólf mánaða verðbólga mældist 15,9%, en reiknað er með að hún muni aukast enn frekar á næstu mánuðum og fara yfir 20% í byrjun næsta árs.

Framhaldið er mjög óvíst og ræðst að miklu leyti af gengisþróun krónunnar.  Verulegur afgangur myndast fljótt í vöru og þjónustuviðskiptum við útlönd og viðskiptahalli nánast hverfur þegar á næsta ári," að því er fram kemur í Peningamálum Seðlabanka Íslands.

Tekur langan tíma að koma efnahagslífinu í fyrra horf

Langan tíma mun taka efnahagslífið að komast í fyrra horf. Hve skjótt bati getur hafist veltur einkum á því hve langan tíma tekur að koma á stöðugleika í gengismálum. Einnig mun erlend fjárfesting hafa verulega þýðingu.

„Meðan verulegur slaki er í efnahagslífinu ættu að vera tiltölulega góðar horfur á því að halda gengi krónu stöðugu og verðbólgu lágri. Þótt gengi krónunnar fái tímabundið aukið vægi við vaxtaákvarðanir er einhliða fastgengisstefna ekki á döfinni og að óbreyttu verður verðbólgumarkmiðið á ný grundvöllur stefnunnar í peningamálum þegar tekist hefur að koma á stöðugleika í gengismálum.

Hins vegar er æskilegt að skjóta styrkari stoðum undir verðbólgumarkmiðið um leið og endurmetið er hvaða fyrir komulag gengis- og peningamála hentar til lengri tíma litið," að því er segir í Peningamálum Seðlabanka Íslands.

Ekki hægt að koma í veg fyrir verulegt atvinnuleysi

 Framundan eru mjög snörp umskipti á vinnumarkaði. Eftirspurn eftir vinnuafli mun dragast það mikið saman að sveigjanleiki íslensks vinnumarkaðar getur ekki komið í veg fyrir verulegt atvinnuleysi á næstu árum. Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi aukist hratt allt til loka næsta árs og verði yfir sögulegu hámarki sínu fram á seinni hluta spátímans.

Þrátt fyrir töluverðan samdrátt kaupmáttar bendir flest til að kjarasamningar á almennum vinnumarkaði verði framlengdir án við bótarlaunahækkana áður en þeir koma til endurskoðunar á næsta ári.

 Greinileg merki um viðsnúning fyrir hrun bankakerfisins

 Heildarvinnustundum fjölgaði um 5% milli ára á þriðja fjórðungi þessa árs samkvæmt niðurstöðum vinnumarkaðskönnunar Hagstofu Íslands. Greinileg merki þess að vinnumarkaðurinn væri farinn að veikjast um talsvert komu ekki fram fyrr en Vinnumálastofnun birti tölur fyrir septembermánuð. Atvinnuleysi að teknu tilliti til árstíðar jókst úr 1,3% í 1,5% og innflutningur erlends vinnuafls virðist hafa stöðvast að miklu leyti.

Hópuppsögnum fjölgar

Töluvert hefur verið um hópuppsagnir í byggingariðnaði, fjármálastarfsemi og í ýmis konar þjónustu og gera má ráð fyrir að þær færist í aukana á næstu mánuðum. Hins vegar er enn nokkur umframeftirspurn eftir vinnuafli í einstökum atvinnugreinum, sérstaklega í umönnunarstörfum hjá hinu opinbera. Fyrirtæki sem framleiða fyrir heima markað búa sig undir mikinn samdrátt.

Vandinn á gjaldeyrismarkaði hefur einnig áhrif á afkomu út flutn ings fyrirtækja, þótt lágt gengi krónunnar skapi ákjósanleg skil yrði fyrir aukna markaðshlutdeild erlendis. Verði samdráttur eftir spurnar í helstu viðskiptalöndum okkar langvarandi gæti það þó takmarkað sóknarmöguleika útflutningsgreina.

Brottflutningur erlendra starfsmanna er líklega helsta skýring þess að minnkandi eftirspurn eftir vinnuafli kom ekki fram í auknu atvinnu leysi fyrr en í september. Í síðustu niðursveiflu hélst hlutfall erlendra ríkisborgara af vinnuaflinu óbreytt, enda var þess vænst að niðursveifla yrði skammvinn vegna fyrirhugaðra stóriðjuframkvæmda. Atvinnurekendur vildu því ekki segja upp erlendu vinnuafli til að ráða Íslendinga sem færu til annarra starfa um leið og atvinnuástandið batnaði. Annað er uppi á teningnum nú.

Útlendingar farnir úr landi

Augljóst er að niðursveiflan verður mun meiri og langvinnari en árið 2002. Jafnframt er ávinningur erlendra ríkisborgara af vinnu hér á landi mun minni eftir gengislækkun krónunnar og möguleikar þeirra til að afla tekna með því að vinna langa vinnuviku hafa skerst. Stór hluti þeirra erlendu starfsmanna sem kom til landsins í uppsveiflunni hefur því horfið úr landi.

Samkvæmt upplýsingum frá vinnumiðlunum kjósa flestir erlendir ríkisborgarar sem misst hafa vinnuna að snúa aftur til síns heima lands. Íslenskir ríkisborgarar sem missa vinnuna kunna einnig að leita til annarra landa í atvinnuleit. Versni atvinnuástand hins vegar einnig í nálægum löndum kann það að takmarka möguleika þeirra, sérstaklega í ljósi þess að líklegt er að atvinnuástand í þeim atvinnugreinum þar sem flestir munu missa vinnuna hér á landi, t.d. byggingariðnaði, fjármálageiranum og almennri þjónustu, versni einnig annars staðar á evrópska efnahagssvæðinu og víðar.

Eitt af einkennum íslensks vinnumarkaðar er að atvinnuþátttaka lagar sig hratt að eftirspurn eftir vinnuafli. Á þetta sérstaklega við um yngsta aldurshópinn (16-24 ára). Gert er ráð fyrir að svo verði einnig nú. Áætlað er að atvinnuþátttaka verði tveimur prósentum minni á næsta ári en hún er í ár og um þremur prósentum minni á árunum 2010-2011. Vinnumarkaðurinn mun einnig laga sig að minni eftirspurn með styttingu vinnutíma. Gert er ráð fyrir að atvinnurekendur leitist við að draga úr launakostnaði með því að minnka kostnaðarsama yfirvinnu og fækka vinnustundum almennt.

Þrátt fyrir sveigjanleika íslensks vinnumarkaðar verður ekki hjá því komist að atvinnuleysi aukist verulega á næstu árum. Skellurinn sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir er of mikill til þess að raunhæft sé að minni atvinnuþátttaka, styttri vinnutími og útflutningur vinnuafls mæti samdrætti eftirspurnar. Samkvæmt þeirri spá sem hér er birt eykst atvinnuleysi hratt til loka næsta árs, þegar það verður því sem næst 10%. Það er mun meira atvinnuleysi en um miðjan síðasta áratug, en í samræmi við reynslu annarra landa sem gengið hafa í gegnum sambærilegar fjármálakreppur. Áætlað er að atvinnuleysi verði mjög mikið allt til loka árs 2010 og verði að meðaltali 8% á því ári, en verði komið niður í um 4% í lok spátímans.

Forsendur kjarasamninga brostnar …

Áður en fjármálakreppan skall á af fullum þunga var ljóst að forsendu ákvæði samninga á almennum vinnumarkaði myndu ekki halda. Forsendur kjarasamninga eru tvær: að farið verði að draga úr verðbólgu á seinni hluta þessa árs og í upphafi næsta árs og að kaupmáttur á almennum vinnumarkaði haldist að minnsta kosti óbreyttur á tímabilinu janúar til desember 2008.

Í september hafði kaupmáttur launa þegar dregist saman um tæp 5% frá því í janúar. Verðbólguhorfur eftir lækkun krónunnar í september og október hafa í för með sér að verðbólga mun aukast enn frekar en ekki hjaðna á næstu mánuðum eins og forsendur kjarasamninga gera ráð fyrir.

Í forsendum spárinnar er engu að síður gert ráð fyrir að kjara samningar á almennum vinnumarkaði verði framlengdir án þess að til viðbótarlaunahækkana komi. Jafnframt er gert ráð fyrir að kjarasamningar hjá hinu opinbera verði framlengdir til jafn langs tíma og samningar á almennum vinnumarkaði, og með svipuðum launa hækkunum og eru í þeim kjarasamningum, að því er segir í Peningamálum.

 Peningamál í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert