Spá 10% atvinnuleysi

Seðlabankinn spáir 10% atvinnuleysi
Seðlabankinn spáir 10% atvinnuleysi

Verðbólgu­mark­mið Seðlabank­ans hef­ur beðið hnekki og tæp­ast verður haldið áfram á grund­velli þess eins á næstu mánuðum. Þetta kem­ur fram í ný­út­gefn­um Pen­inga­mál­um Seðlabanka Íslands. Þar er því spáð að at­vinnu­leysi muni aukast og er áætlað að það muni nema 10% vinnu­afls­ins í lok næsta árs.

Tak­ist hins veg­ar að ná mark­miði um stöðugt og hærra gengi en verið hef­ur und­an­farn­ar vik­ur eru horf­ur á að verðbólga geti hjaðnað til­tölu­lega hratt og vext­ir í kjöl­farið, einkum ef samn­ing­ar tak­ast um óbreytta kjara­samn­inga.

Spá rúm­lega 20% verðbólgu

„Um­hverfi pen­inga­mála hef­ur gjör­breyst á fá­ein­um vik­um eft­ir greiðsluþrot helstu fjár­mála­fyr­ir­tækja á Íslandi. Mik­il­væg­ar miðlun­ar­leiðir pen­inga­stefn­unn­ar urðu að miklu leyti óvirk­ar og veru­leg­ir hnökr­ar hafa verið á greiðslumiðlun við út­lönd.

Gengi krón­unn­ar féll því mikið og til varð tvö­fald­ur gjald­eyr­is­markaður, ann­ars veg­ar inn­lend­ur þar sem gjald­eyr­ir var skammtaður sam­kvæmt for­gangslista eft­ir til­mæl­um Seðlabanka Íslands og óform­leg­ur markaður, þar sem gengið réðst í tak­mörkuðum og ógagn­sæj­um viðskipt­um.

Raun­gengi krón­unn­ar er orðið mun lægra en fær staðist til lengd­ar. Fyrstu áhrifa geng­is­lækk­un­ar­inn­ar gætti í októ­ber, þegar tólf mánaða verðbólga mæld­ist 15,9%, en reiknað er með að hún muni aukast enn frek­ar á næstu mánuðum og fara yfir 20% í byrj­un næsta árs.

Fram­haldið er mjög óvíst og ræðst að miklu leyti af geng­isþróun krón­unn­ar.  Veru­leg­ur af­gang­ur mynd­ast fljótt í vöru og þjón­ustu­viðskipt­um við út­lönd og viðskipta­halli nán­ast hverf­ur þegar á næsta ári," að því er fram kem­ur í Pen­inga­mál­um Seðlabanka Íslands.

Tek­ur lang­an tíma að koma efna­hags­líf­inu í fyrra horf

Lang­an tíma mun taka efna­hags­lífið að kom­ast í fyrra horf. Hve skjótt bati get­ur haf­ist velt­ur einkum á því hve lang­an tíma tek­ur að koma á stöðug­leika í geng­is­mál­um. Einnig mun er­lend fjár­fest­ing hafa veru­lega þýðingu.

„Meðan veru­leg­ur slaki er í efna­hags­líf­inu ættu að vera til­tölu­lega góðar horf­ur á því að halda gengi krónu stöðugu og verðbólgu lágri. Þótt gengi krón­unn­ar fái tíma­bundið aukið vægi við vaxta­ákv­arðanir er ein­hliða fast­geng­is­stefna ekki á döf­inni og að óbreyttu verður verðbólgu­mark­miðið á ný grund­völl­ur stefn­unn­ar í pen­inga­mál­um þegar tek­ist hef­ur að koma á stöðug­leika í geng­is­mál­um.

Hins veg­ar er æski­legt að skjóta styrk­ari stoðum und­ir verðbólgu­mark­miðið um leið og end­ur­metið er hvaða fyr­ir komu­lag geng­is- og pen­inga­mála hent­ar til lengri tíma litið," að því er seg­ir í Pen­inga­mál­um Seðlabanka Íslands.

Ekki hægt að koma í veg fyr­ir veru­legt at­vinnu­leysi

 Framund­an eru mjög snörp um­skipti á vinnu­markaði. Eft­ir­spurn eft­ir vinnu­afli mun drag­ast það mikið sam­an að sveigj­an­leiki ís­lensks vinnu­markaðar get­ur ekki komið í veg fyr­ir veru­legt at­vinnu­leysi á næstu árum. Gert er ráð fyr­ir að at­vinnu­leysi auk­ist hratt allt til loka næsta árs og verði yfir sögu­legu há­marki sínu fram á seinni hluta spá­tím­ans.

Þrátt fyr­ir tölu­verðan sam­drátt kaup­mátt­ar bend­ir flest til að kjara­samn­ing­ar á al­menn­um vinnu­markaði verði fram­lengd­ir án við bót­ar­launa­hækk­ana áður en þeir koma til end­ur­skoðunar á næsta ári.

 Greini­leg merki um viðsnún­ing fyr­ir hrun banka­kerf­is­ins

 Heild­ar­vinnu­stund­um fjölgaði um 5% milli ára á þriðja fjórðungi þessa árs sam­kvæmt niður­stöðum vinnu­markaðskönn­un­ar Hag­stofu Íslands. Greini­leg merki þess að vinnu­markaður­inn væri far­inn að veikj­ast um tals­vert komu ekki fram fyrr en Vinnu­mála­stofn­un birti töl­ur fyr­ir sept­em­ber­mánuð. At­vinnu­leysi að teknu til­liti til árstíðar jókst úr 1,3% í 1,5% og inn­flutn­ing­ur er­lends vinnu­afls virðist hafa stöðvast að miklu leyti.

Hópupp­sögn­um fjölg­ar

Tölu­vert hef­ur verið um hópupp­sagn­ir í bygg­ing­ariðnaði, fjár­mála­starf­semi og í ýmis kon­ar þjón­ustu og gera má ráð fyr­ir að þær fær­ist í auk­ana á næstu mánuðum. Hins veg­ar er enn nokk­ur um­fram­eft­ir­spurn eft­ir vinnu­afli í ein­stök­um at­vinnu­grein­um, sér­stak­lega í umönn­un­ar­störf­um hjá hinu op­in­bera. Fyr­ir­tæki sem fram­leiða fyr­ir heima markað búa sig und­ir mik­inn sam­drátt.

Vand­inn á gjald­eyr­is­markaði hef­ur einnig áhrif á af­komu út flutn ings fyr­ir­tækja, þótt lágt gengi krón­unn­ar skapi ákjós­an­leg skil yrði fyr­ir aukna markaðshlut­deild er­lend­is. Verði sam­drátt­ur eft­ir spurn­ar í helstu viðskipta­lönd­um okk­ar langvar­andi gæti það þó tak­markað sókn­ar­mögu­leika út­flutn­ings­greina.

Brott­flutn­ing­ur er­lendra starfs­manna er lík­lega helsta skýr­ing þess að minnk­andi eft­ir­spurn eft­ir vinnu­afli kom ekki fram í auknu at­vinnu leysi fyrr en í sept­em­ber. Í síðustu niður­sveiflu hélst hlut­fall er­lendra rík­is­borg­ara af vinnu­afl­inu óbreytt, enda var þess vænst að niður­sveifla yrði skamm­vinn vegna fyr­ir­hugaðra stóriðju­fram­kvæmda. At­vinnu­rek­end­ur vildu því ekki segja upp er­lendu vinnu­afli til að ráða Íslend­inga sem færu til annarra starfa um leið og at­vinnu­ástandið batnaði. Annað er uppi á ten­ingn­um nú.

Útlend­ing­ar farn­ir úr landi

Aug­ljóst er að niður­sveifl­an verður mun meiri og lang­vinn­ari en árið 2002. Jafn­framt er ávinn­ing­ur er­lendra rík­is­borg­ara af vinnu hér á landi mun minni eft­ir geng­is­lækk­un krón­unn­ar og mögu­leik­ar þeirra til að afla tekna með því að vinna langa vinnu­viku hafa skerst. Stór hluti þeirra er­lendu starfs­manna sem kom til lands­ins í upp­sveifl­unni hef­ur því horfið úr landi.

Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá vinnumiðlun­um kjósa flest­ir er­lend­ir rík­is­borg­ar­ar sem misst hafa vinn­una að snúa aft­ur til síns heima lands. Íslensk­ir rík­is­borg­ar­ar sem missa vinn­una kunna einnig að leita til annarra landa í at­vinnu­leit. Versni at­vinnu­ástand hins veg­ar einnig í ná­læg­um lönd­um kann það að tak­marka mögu­leika þeirra, sér­stak­lega í ljósi þess að lík­legt er að at­vinnu­ástand í þeim at­vinnu­grein­um þar sem flest­ir munu missa vinn­una hér á landi, t.d. bygg­ing­ariðnaði, fjár­mála­geir­an­um og al­mennri þjón­ustu, versni einnig ann­ars staðar á evr­ópska efna­hags­svæðinu og víðar.

Eitt af ein­kenn­um ís­lensks vinnu­markaðar er að at­vinnuþátt­taka lag­ar sig hratt að eft­ir­spurn eft­ir vinnu­afli. Á þetta sér­stak­lega við um yngsta ald­urs­hóp­inn (16-24 ára). Gert er ráð fyr­ir að svo verði einnig nú. Áætlað er að at­vinnuþátt­taka verði tveim­ur pró­sent­um minni á næsta ári en hún er í ár og um þrem­ur pró­sent­um minni á ár­un­um 2010-2011. Vinnu­markaður­inn mun einnig laga sig að minni eft­ir­spurn með stytt­ingu vinnu­tíma. Gert er ráð fyr­ir að at­vinnu­rek­end­ur leit­ist við að draga úr launa­kostnaði með því að minnka kostnaðarsama yf­ir­vinnu og fækka vinnu­stund­um al­mennt.

Þrátt fyr­ir sveigj­an­leika ís­lensks vinnu­markaðar verður ekki hjá því kom­ist að at­vinnu­leysi auk­ist veru­lega á næstu árum. Skell­ur­inn sem þjóðarbúið hef­ur orðið fyr­ir er of mik­ill til þess að raun­hæft sé að minni at­vinnuþátt­taka, styttri vinnu­tími og út­flutn­ing­ur vinnu­afls mæti sam­drætti eft­ir­spurn­ar. Sam­kvæmt þeirri spá sem hér er birt eykst at­vinnu­leysi hratt til loka næsta árs, þegar það verður því sem næst 10%. Það er mun meira at­vinnu­leysi en um miðjan síðasta ára­tug, en í sam­ræmi við reynslu annarra landa sem gengið hafa í gegn­um sam­bæri­leg­ar fjár­málakrepp­ur. Áætlað er að at­vinnu­leysi verði mjög mikið allt til loka árs 2010 og verði að meðaltali 8% á því ári, en verði komið niður í um 4% í lok spá­tím­ans.

For­send­ur kjara­samn­inga brostn­ar …

Áður en fjár­málakrepp­an skall á af full­um þunga var ljóst að for­sendu ákvæði samn­inga á al­menn­um vinnu­markaði myndu ekki halda. For­send­ur kjara­samn­inga eru tvær: að farið verði að draga úr verðbólgu á seinni hluta þessa árs og í upp­hafi næsta árs og að kaup­mátt­ur á al­menn­um vinnu­markaði hald­ist að minnsta kosti óbreytt­ur á tíma­bil­inu janú­ar til des­em­ber 2008.

Í sept­em­ber hafði kaup­mátt­ur launa þegar dreg­ist sam­an um tæp 5% frá því í janú­ar. Verðbólgu­horf­ur eft­ir lækk­un krón­unn­ar í sept­em­ber og októ­ber hafa í för með sér að verðbólga mun aukast enn frek­ar en ekki hjaðna á næstu mánuðum eins og for­send­ur kjara­samn­inga gera ráð fyr­ir.

Í for­send­um spár­inn­ar er engu að síður gert ráð fyr­ir að kjara samn­ing­ar á al­menn­um vinnu­markaði verði fram­lengd­ir án þess að til viðbót­ar­launa­hækk­ana komi. Jafn­framt er gert ráð fyr­ir að kjara­samn­ing­ar hjá hinu op­in­bera verði fram­lengd­ir til jafn langs tíma og samn­ing­ar á al­menn­um vinnu­markaði, og með svipuðum launa hækk­un­um og eru í þeim kjara­samn­ing­um, að því er seg­ir í Pen­inga­mál­um.

 Pen­inga­mál í heild

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert