Lítið er um laus störf á landsbyggðinni um þessar mundir og ennþá minna er um að þau krefjist sérmenntunar. Á Norðurlandi vestra er þó enn eftirspurn eftir háskólamenntuðu fólki að sögn Líneyjar Árnadóttur, forstöðumanns Vinnumálastofnunar Norðurlands vestra. Almennt voru forstöðumenn stofnunarinnar á landsbyggðinni sammála um að litla vinnu væri að hafa.
„Það er enga vinnu að hafa og þær stöður sem losna fyllast fljótt,“ var svarið á Austurlandi en þar voru 76 einstaklingar á atvinnuleysisskrá 5. nóvember. Lítið framboð er sömuleiðis af störfum á Vesturlandi og þar voru 136 á atvinnuleysisskrá. Gunnar Richardsson, forstjóri Vinnumálastofnunar Vesturlands, segir þó enn eitthvað um að járniðnaðarmenn séu ráðnir til starfa þó að lítið sé auglýst.
Á Suðurlandi hefur eftirspurnin eftir starfsfólki einnig tekið dýfu. „Í sumar gátum við ekki mannað allar stöður en nú er þveröfug staða uppi. Núna geta atvinnurekendur valið úr fólki,“ segir Auður Guðmundsdóttir, forstöðumaður Vinnumálastofnunar Suðurlands.
Þar er 271 einstaklingur á atvinnuleysiskrá og þau störf sem auglýst eru í boði á vefsíðu stofnunarinnar krefjast lítillar sérhæfingar.
„Við höfum ekki orðið vör við mikinn samdrátt enn sem komið er,“ segir Guðrún Gissurardóttir, forstöðumaður Vinnumálastofnunar Vestfjarða, og bendir á að sumir atvinnurekendur í landshlutanum hafi frekar áhyggjur af að erlenda verkafólkið kunni að vera hugsa sér til hreyfings. Eitthvað hafi engu að síður dregið úr ráðningum en að hluta til sé þar um árstíðabundin störf að ræða.
„Við höfum þó vísbendingar um að staðan kunni að versna og erum því þessa dagana að vinna að könnun í samstarfið við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða til að ná upp skýrari mynd af atvinnuhorfum á næstunni,“ segir hún.
Alls staðar, utan Norðurlands vestra, er töluvert um að fólk í atvinnuleit hafi samband við Vinnumálastofnun og hjá Vinnumálastofnun Suðurnesja er fjöldinn sem leitar til stofnunarinnar slíkur að varla næst að svara í síma. Á Vestfjörðum þekkir Guðrún dæmi þess að fólk sem misst hafi vinnu á höfuðborgarsvæðinu hafi haft samband til að kanna atvinnuhorfur. „En það hafa þá verið einstaklingar sem eiga rætur hér fyrir vestan. Eru til dæmis ættaðir héðan eða ólust hér upp,“ segir hún.