Jón Ásgeir Jóhannesson, aðaleigandi Rauðsólar, sem nú heitir Ný sýn hf., sem keypt hefur fjölmiðlahluta 365, segist vel skilja áhyggjur íslenskra ráðamanna af því að stór hluti einkafjölmiðla á Íslandi sé að safnast á eina hönd, hans hönd, og hann sé tilbúinn til þess að selja frá sér hluti, þannig að hann eigi innan við 40% í Nýrri sýn. Sömuleiðis að endurskoða samninginn um kaup á 36,5% í Árvakri, með það fyrir augum að falla frá sameiningu Fréttablaðsins og Árvakurs.
„Ég skil áhyggjur ráðamanna af því að eignarhald á einkafjölmiðlum sé að safnast að mestu leyti á eina hönd. Við þurfum að ná sátt um þau mál og ég er tilbúinn til þess að útvíkka eignarhald mitt á Nýrri sýn, auk þess að endurskoða samninginn um aðkomu 365 að Árvakri,“ sagði Jón Ásgeir í samtali við Morgunblaðið síðdegis í gær, rétt áður en hann flaug af landi brott.
Spurður hvað hann ætti við með því að segjast vera tilbúinn til þess að útvíkka eignarhald sitt á Nýrri sýn sagði Jón Ásgeir: „Ég er tilbúinn að skoða sölu á hlutum í 365 og Nýrri sýn, þannig að eignarhald mitt fari undir 40% viðmiðunarmörkin.“
Jón Ásgeir sagði ennfremur: „Þá tel ég eðlilegt að við setjumst niður með forsvarsmönnum Árvakurs og könnum hvort það er ekki flötur á því að breyta samningi okkar frá 10. október sl. með þeim hætti að við föllum frá því að sameina Fréttablaðið Árvakri og eignast þannig 36,5% hlut í Árvakri.