Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari hefur hætt við rannsókn á starfsemi Glitnis, Landsbankans og Kaupþings. Þetta kemur fram á vef Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra. Segir Björn að næst liggi fyrir af hans hálfu að eggja fram frumvarp um sérstakan saksóknara.
„Í dag fékk ég bréf frá Valtý Sigurðssyni ríkissaksóknara, þar sem hann telur rétt að framkvæma þá tillögu mína að koma á laggirnar sérstöku embætti saksóknara. Ríkissaksóknari var ekki að rannsaka starfsemi bankanna, eins og skilja mátti af frétt í hljóðvarpi ríkisins, hann var að kortleggja umfang málsins, sem kann að koma inn á borð ákæruvaldsins og telur að tvennt þurfi að gera: Kalla til erlenda sérfræðinga, en umfang þess verkefnis, er hann að kanna, og hins vegar að samþykkja frumvarp, sem ég er með í smíðum um sérstakan saksóknara.
Ég tel, að þessi vinna Boga Nilssonar og Valtýs auðveldi okkur að takast á við framhaldið. Hvorugur var að rannsaka einstök mál. Það er ekki verkefni ríkissaksóknara heldur Fjármálaeftirlits og lögreglu og þangað eiga menn að snúa sér með kærur," að því er segir á vef Björns Bjarnasonar.