Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs lagði í dag fram frumvarp á Alþingi sem gerir ráð fyrir áfnámi allra sérákvæða um eftirlaun forseta, ráðherra, þingmanna og hæstaréttardómara frá og með 1. janúar næstkomandi.
Með frumvarpinu er þessum hópi gert að greiða iðgjöld til lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og njóta frá og með þeim degi réttinda samkvæmt reglum A-deildar LSR.
Í frumvarpinu er einnig lagt til að allar launagreiðslur til þessa hóps umfram 450 þúsund krónur skerðist um 20% í átt til launajöfnunar í landinu á erfiðum tímum.
Formaður VG, Steingrímur J. Sigfússon, upplýsti formenn annarra stjórnmálaflokka um þetta á fundi í morgun. Steingrímur sagði þolinmæði þingflokks Vinstri grænna þrotna að bíða þess að eitthvað gerðist í málinu af hálfu ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna. Ríkisstjórnin hefði nú setið að völdum í eitt og hálft ár með yfirgnæfandi þingmeirihluta og ákvæði um endurskoðun eftirlaunalaganna í stjórnarsáttmálanum. Enn hefði ekkert gerst og engin hreyfing verið á málinu mánuðum saman.
Steingrímur sagði að jafnvel hefði verið látið í veðri vaka að málið strandaði á stjórnarandstöðunni. Það væri tilhæfulaust. Nú hefði ríkisstjórnin tækifæri til að samþykkja frumvarp þingflokks VG sem fæli í sér svipaða nálgun og frumvarp nokkurra þingmanna Samfylkingarinnar frá síðasta þingi. Þau sjónarmið sem fram hefðu komið síðustu daga að ekki væri unnt að gera breytingar á eftirlaunalögunum fyrir áramót væru fráleit og við núverandi aðstæður í þjóðmálum væri einboðið að Alþingi tæki af skarið og kæmi sérréttindum eftirlaunalaganna út úr heiminum fyrir jól.
Það er jafnframt skoðun þingflokks VG að í beinu framhaldi af afnámi eftirlaunalaganna beri Alþingi að taka til skoðunar þær greiðslur til þingmanna sem ákvarðaðar eru af þinginu sjálfu í sama tilgangi.