Hættum frekar við lánið frá IMF

 Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að ófrágengin lán frá öðrum löndum tefja fyrir afgreiðslu lánsins hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Lánið sé skilyrt því að önnur lönd komi einnig að málum.  Hann segist ekki vita annað en að lánið verði tekið fyrir strax eftir helgina. Hann segist ekki sjá neitt því til fyrirstöðu að lánið verði afgreitt strax eftir helgina. Hann segir að engu að síður sé kvittur uppi um að ákveðin Evrópusambandslönd ætli að beita áhrifum sínum og tefja málið þar sem ekki sé búið að gera upp Icesave reikningana. Hann segist ætla að láta segja sér það tvisvar áður en hann trúi því að Alþjóða Gjaldeyrissjóðurinn sé misnotaður með þeim hætti.

Hann segir að Íslendingar ábyrgist ekki lánið sem Alistair Darling fjármálaráðherra Breta tilkynnti í dag að yrði notað til að greiða breskum innstæðueigendum á Icesavereikningunum,  en það mátti þó skilja á tilkynningu Darlings. Það sé lofsvert að Bretar gangi frá þessu máli gagnvart breskum almenningi en deilan sjálf sé óleyst. Þetta sé einhver erfiðasta og leiðinlegasta milliríkjadeila sem hann muni eftir og hörmulegt að hún sé komin til vegna aðgerða einkafyrirtækisins Landsbankans.  Hann fullyrðir að það verði aldrei fallist á að þessar Evrópuþjóðir kúgi Íslendinga hjá Alþjóða gjaldleyrissjóðnum.  Ef við fáum ekki lánið verði bara að hugsa allt málið upp á nýtt. Hann segir að Ísland verði ekki gjaldþrota þótt við fáum ekki lánið hjá Alþjóða Gjaldeyrissjóðnum, það verði ekki látið gerast. Það sé ekki íslenska ríkið sem standi í þessum vanda  heldur einkabankarnir og málið snúist um það að íslenska ríkið og almenningur ætli ekki að taka að sér að borga skuldir þessara einkaaðila.

 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka