Kynna leiðir

Halldór Halldórsson vinnur að tillögum með stjórnvöldum um að mæta …
Halldór Halldórsson vinnur að tillögum með stjórnvöldum um að mæta vanda sveitarfélaga. Ásdís Ásgeirsdóttir

Unnið er að hörðum höndum að því að leysa úr rekstrarvanda sveitarfélaganna í landinu vegna erfiðra efnahagsaðstæðna, að sögn Halldórs Halldórssonar formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga. Stefnt verður að því að ræða um og kynna leiðir til úrbóta á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga 13. til 14 nóvember. Hún verður haldin á Hilton hótelinu við Suðurlandsbraut.

Halldór segir viðræður um lausn á vandamálum sveitarfélaga hafa gengið vel en Kristján Möller, samgönguráðherra og ráðherra sveitarstjórnarmála, og Árni M. Mathiessen fjármálaráðherra hafa að undanförnu farið yfir erfiða stöðu sveitarfélaga með fulltrúum þeirra.

Meðal þess sem viðræðurnar hafa leitt í ljós er að ekki sé þörf á því að breyta lögum til þess að heimila sveitarstjórnum að skila fjárhagsáætlun með halla fyrir næsta ár. Samkvæmt lögum er það bannað en að sögn Halldórs er reglugerðarbreyting næg til þess að koma þeirri breytingu í gegn.

Aðrar tillögur miða að því að gera sveitarfélögum mögulegt að koma til móts við íbúa með greiðsluaðlögun komi til verulegra erfiðleika. Þá hafa fulltrúar sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu einnig rætt um þörf á því að breyta lögum um innskil á byggingalóðum. Lögin gera ráð fyrir því að sveitarfélag þurfi að borga þeim sem fékk úthlutað lóð til baka það sem greitt var fyrir hana, ef henni er skilað, ásamt verðbótum.

Líklegt er að sú hraða niðursveifla í efnahagsmálum, sem hrun íslensku bankanna hefur haft í för með sér, muni hafa mikil áhrif á tekjustofna sveitarfélaga að sögn Halldórs. Mikilvægt sé fyrir stjórnvöld og sveitarfélög í landinu að undirbúa sig vel vegna aðstæðna í landinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert