„Þetta var góður fundur og skynsamleg umræða sem fór fram á honum. Það skiptir máli að allar hliðar málsins séu skoðaðar, áður en ákvarðanir eru teknar, og vonandi getum við sem erum að leggja til úrlausnir og greina vandann hjálpað til,“ segir Gylfi Zoega hagfræðiprófessor sem sat fund efnahags- og skattanefndar Alþingis í morgun. Auk fulltrúa í nefndinni voru fulltrúar frá Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambands Íslands og Seðlabanka Íslands.
„Ég tel að það sé mjög brýnt að styðja við þá vinnu sem nú fer fram hjá stjórnvöldum vegna greiðsluvandamála heimila og fyrirtækja. Það er fyrst og fremst það sem ég og Jón [Daníelsson prófessor, innsk. blm.] höfum verið að gera með okkar greinum,“ segir Gylfi.
Hugmyndir Gylfa og Jóns varðandi aðstoð við heimilin eru í fyrsta lagi að vernda þau fyrir ágangi kröfuhafa. Í annan stað verði gefinn kostur á greiðsluaðlögun, svo sem í formi greiðslufrests, lengingar lána og gjaldmiðilsbreytingar. Í þriðja lagi verði boðið upp á færslu húsnæðislána í Íbúðalánasjóð. Í fjórða lagi leggja Gylfi og Jón til að boðið verði upp á umbreytingu lána í eignarhlut húsnæðislánveitanda í fasteignum.