Þýski bankinn KfW Group, sem er þróunarbanki í eigu ríkisins, hefur lagt til hliðar 98 milljónir evra vegna mögulegs taps sem er tengt fjárfestingum á Íslandi. Bankinn vonast til þess að endurheimta stóran hluta af 288 milljónum evra sem hann á inni hjá íslenskum bönkum.
Í viðtali við Bloomberg segir talsmaður bankans, Nathalie Druecke, að inni í þeirri fjárhæð sé 150 milljón evra lán til Glitnis sem var notað til þess að styðja við bakið á litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Auk þess sé um að ræða 138 milljónir evra í skuldabréfum frá íslenskum bönkum. Þýskir bankar áttu útistandandi kröfur á íslensk fyrirtæki upp á 21 milljarð evra í lok júní, samkvæmt Bloomberg.