„ÉG hef heyrt þennan orðróm líka, en veit ekki hvort það er fótur fyrir honum,“ segir Diana Wallis, þingmaður og varaforseti Evrópuþingsins, í samtali við Morgunblaðið. Vísar hún þar til frétta þess efnis að embættismenn ESB hafi gefið í skyn við íslenska þingmenn að lagst verði gegn lánum til Íslands meðan deila landanna vegna Icesave-reikninganna sé óútkljáð.
„Sé þessi orðrómur réttur yrði ég fyrir miklum vonbrigðum því ég er þeirrar skoðunar að aðgerðir Breta gegn Íslendingum í nafni hryðjuverkalaga hafi aðeins gert vonda stöðu verri,“ segir Wallis og tekur fram að nú sé tími fyrir samstöðu Evrópuríkja.
Hvorki Alan Seatter, fulltrúi framkvæmdastjórnar ESB, né Natasha Butler, fulltrúi ráðherraráðs ESB, vildu í samtölum við Morgunblaðið staðfesta frásögn íslensku þingmannanna.
Í samtali við Morgunblaðið hvetur Wallis íslensk stjórnvöld til þess að fara með deiluna um Icesave-reikninga dómstólaleiðina. „Mér skilst að íslensk stjórnvöld hafi þegar boðið breskum stjórnvöldum að fara með málið fyrir Evrópudómstólinn en Bretar hafnað því. Væri ég í sporum íslenskra ráðamanna væri ég ekki smeyk við að fara með málið fyrir breska dómstóla, enda eru þeir ekki hræddir við að dæma eigin stjórnvöldum í óhag.“