Dregið úr ferðum ráðuneyta

Ingibjörg Sólrún í utanríkisráðuneytinu.
Ingibjörg Sólrún í utanríkisráðuneytinu. mbl.is/GRG

Ráðuneyti hafa gripið til aðgerða til að draga úr kostnaði á síðustu vikum, eftir að efnahagskreppan dundi yfir. M.a. hefur verið dregið úr utanlandsferðum eins og kostur er.

Helgi Már Arthursson, upplýsingafulltrúi heilbrigðisráðuneytisins, segir að gefin hafi verið út almenn sparnaðartilmæli í ráðuneytinu og m.a. verið dregið úr utanlandsferðum á vegum ráðuneytisins. „Það er að vísu stutt síðan en ég veit að í einhverjum tilfellum hefur fólk hætt við að fara á fundi og ráðstefnur.“

Svipaða sögu hefur Pétur Ásgeirsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu, að segja. Tekin hafi verið sú ákvörðun fyrir tveimur vikum að skera niður ferðalög eins og hægt er. „Línan er sú að við förum núna eingöngu í þær ferðir sem teljast vera óhjákvæmilegar og sömu fyrirmælum hefur verið beint til sendiskrifstofanna.“ Þannig sé í hverri viku hætt við ferðir sem áður voru áformaðar. „Auk þess höfum við sent sendiskrifstofunum fyrirmæli um að grípa til allra mögulegra hagræðingaraðgerða í rekstri og höfum stoppað allar framkvæmdir, viðhald og stofnkostnað.“

Jóhannes Tómasson, upplýsingafulltrúi samgönguráðuneytisins, segir að á dögunum hafi samgönguráðherra fundað með forstöðumönnum stofnana ráðuneytisins og brýnt fyrir þeim að fara í saumana á öllum kostnaði og hið sama hafi verið gert innan ráðuneytisins sjálfs. „Menn hafa m.a. verið beðnir um að draga úr ferðum og það hefur beinlínis verið hætt við þátttöku í fundum og ráðstefnum eftir þetta.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka