Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur sent íslenskum yfirvöldum fyrirspurnir sem varða neyðarlögin sem Alþingi samþykkti í síðasta mánuði. Þetta staðfestir Per Sanderud, forseti stjórnar stofnunarinnar, í samtali við Morgunblaðið.
Að sögn Grétu Ingþórsdóttur, aðstoðarmanns forsætisráðherra, óskaði ESA upplýsinga frá stjórnvöldum um hvernig þau teldu aðgerðir sem gripið var til vegna bankakreppunnar samrýmast EES-samningnum. Hún segir að á þriðjudag hafi svar við fyrirspurn ESA verið sent úr ráðuneytinu. „Það er reiknað með að það verði áframhald á samskiptum Íslands og ESA vegna málsins,“ segir Gréta sem segir samskiptin trúnaðarmál á þessu stigi.
Að sögn Sanderuds eru það einkum tvö mál sem ESA vill fá nánari skýringar á frá íslenskum stjórnvöldum.
Annað snúi að innistæðum sparifjáreigenda í íslenskum bönkum og jafnræðis milli þeirra, burtséð frá því í hvaða landi sparnaður þeirra var geymdur. Þetta mál tengist innri markaði Evrópusambandsins. „Okkur ber skylda til að tryggja að aðgerðir Íslendinga brjóti ekki í bága við reglur innri markaðarins,“ segir Sanderud.
Hitt málið sem ESA hafi óskað svara vegna varði stofnun nýju bankanna þriggja á Íslandi og hvernig staðið hafi verið að henni.
Einhver svör hafi borist frá Íslandi, þar sem útskýrt hafi verið til hvaða aðgerða íslensk stjórnvöld hafi gripið og hvers vegna. „Við vitum ekki enn hver verður lokaniðurstaðan,“ segir Sanderud.