Enginn undanþegin rannsókn

Geir H. Haarde, forsætisráðherra,sagði á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum í dag að ríkisstjórnin hafi átt í samstarfi við formenn stjórnarandstöðuflokkanna um hvernig verði staðið að rannsókninni á hruni bankanna. Geir segir að tryggt verði að öll lögbrot sem mögulega hafi verið framin í bankakerfinu verði rannsökuð. Þar skipti engu hver eigi hlut að máli.

„Við munum reyna að gera það á eins breiðum pólitískum grundvelli og hægt er og gerum okkur vonir um að koma því máli í farveg áður en langt um líður og stefnt að því að það verði gert annað hvort með þingsályktun eða lagafrumvarpi svo sú vinna geti hafist sem fyrst."

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, segir að úttekt verði gert á orsökum og undanfara hrunsins og opinberar stofnanir séu þar ekki undanskildar.

Geir segir að bæta verði upplýsingagjöf til almennings og bað fjölmiðla og almenning velvirðingar á að annmarkar hafi verið á upplýsingagjöf. Stefnt sé að bæta úr því en fundið hafi verið að upplýsingagjöfinni. Málið sé risavaxið og það kunni að vera að það takist ekki alltaf að miðla upplýsingum hratt til fólks. Því miður sé ekki alltaf hægt að greina frá öllum hlutum strax.

Hann segir að öll gögn varðandi samninginn við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn verði gerð opinber um leið og það verður hægt. 

Hann segist skilja það vel að það sé reiði og ólga í þjóðfélaginu. „Við höfum skilning á því ástandi. Ég tel að þjóðin hafi sýnt af sér mikið æðruleysi og það sé mikil samstaða í þjóðfélaginu þrátt fyrir allt og bjartsýni á þessum ótrúlega erfiðum tímum. Við vitum það Íslendingar af gamalli reynslu að við munum komast í gegnum þessa erfiðleika. Þó svo árið 2009 verði erfitt þá muni  árið 2010 strax verða skárra og þá muni hagvöxtur taka við sér og þar með störfum fjölga á nýjan leik. Og ástandið verða mun betra," sagði Geir á fundinum í dag.

Geir sagði að bæði hann og Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, hafi tekið það fram áður að þeir muni ekki líða það að lögbrot sem framin kunna að hafa verið í bankakerfinu verði órannsökuð. „Við viljum tryggja það að allt slíkt verði rannsakað ofan í kjölinn og heitum því að láta jafnt yfir alla ganga og enginn fái neina sérstaka sérmeðferð í því. Það er mjög mikilvægt að fólk átti sig á þessu. Það er líka mjög mikilvægt að allir haldi ró sinni og átti sig á því að bankakerfið er að  virka vel. Öll almenn bankaþjónusta er fyrir hendi og ekkert óvænt framundan í þeim efnum. Hvorki í tengslum við samstarf okkar við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn eða annað."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert