Geir H. Haarde, forsætisráðherra, staðfesti á blaðamannafundi að pólsk stjórnvöld ætli að lána Íslendingum 200 milljónir Bandaríkjadala. Í hádeginu kannaðist forsætisráðherra ekki við lánið sem greint var frá í erlendum fjölmiðlum. Geir sagði að þetta hafi fengist staðfest í samtali fjármálaráðherra Íslands og Póllands.
Aðspurður segir Geir að ástæðan fyrir því að hann vissi ekki um lánið frá Pólverjum skýrist af því að Pólverjar leituðu til Svía. Pólski fjármálaráðherrann sagði við Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, í dag að þeir þekktu erfiðleika af þessu tagi auk þess sem fjöldi Pólverja hafi starfað hér. Geir þakkaði Pólverjum fyrir stuðninginn og segir að um drengskaparbragð sé að ræða.
Hann segir að frumkvæðið hafi algjörlega komið frá Pólverjum líkt og Færeyingum og fyrir það beri að þakka.
Til viðbótar við IMF hafa íslensk stjórnvöld rætt við hin Norðurlöndin og Rússa um lán og síðan hafi bæði Færeyingar og Pólverjar bæst við í þann hóp sem ætla að lána Íslendingum, sagði Geir og bætti við að ekki hafi verið boðaður nýr fundur með Rússum um mögulegt lán.
Geir sagði á fundinum að Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hafi boðið Íslendingum lán úr neyðarsjóði Evrópusambandsins. Hann hafi svarað bréfinu strax og að Íslendingar myndu þiggja aðstoð úr sjóðnum. Afgreiðslan taki hins vegar með flýtimeðferð fjóra til sex mánuði og sé því ekki hluti af pakkanum nú með IMF. Geir sagði að fjármálaráðherra hafi upplýsingar um að ekki sé um háar fjárhæðir að ræða sem Íslendingar gætu fengið úr sjóðnum.