Margir óvissuþættir í spánni

Gylfi Magnússon dósent segir gjaldmiðilinn krónuna ónýtan.
Gylfi Magnússon dósent segir gjaldmiðilinn krónuna ónýtan.

„Við erum í þeirri óþægilegu stöðu að vera með ónýtan gjaldmiðil en geta ekki losað okkur við hann í bráð. Verkefnið nú er því fyrst og fremst að reyna að lágmarka skaðann eins og kostur er,“ segir Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands. Hann segir marga óvissuþætti í spá Seðlabanka Íslands um framtíðarhorfur í efnahagsmálum.

Í peningamálum Seðlabanka Íslands, sem komu út í gær, kemur fram að staða efnahagsmála næstu misseri sé mjög slæm. Seðlabankinn spáir því að atvinnuleysi verði um 10 prósent á næsta ári og verðbólgan yfir 20 prósent. Stýrivöxtum verður haldið óbreyttum í 18 prósentum en stefna bankans nú mótast af kröfum sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn IMF setti, eins og seðlabankinn hefur þegar útskýrt. Spáin miðast við að 2 milljarða dollara lán fáist frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum auk þess sem aðrar þjóðir láni okkur til að mæta brýnni þörf. Lánsþörfin er sögð vera um sex milljarðar dollara. Stjórn sjóðsins tekur umsókn Íslands fyrir eftir helgi.

Gylfi segir spá seðlabankans taka mið af því að miklir óvissutímar séu framundan. „Það er erfitt að segja til um hvernig málin munu þróast. Það er tekið fram að einkaneysla munu dragast saman um 25 prósent og það er líklega nærri lagi. Þá er gert ráð fyrir því að fasteignaverð lækki mikið. Aðstæður benda til þess að svo verði,“ segir Gylfi en seðlabankinn spáir því að fasteignaverð mun lækka um 46,7 prósent að raungildi til og með árinu 2010.

Í peningamálum segir: „Verðbólgumarkmið Seðlabankans hefur beðið hnekki og tæpast verður haldið áfram á grundvelli þess eins á næstu mánuðum.“ Gylfi segir þetta ekki koma á óvart. „Þetta hefur í raun legið fyrir í um það bil tvö ár. Eftir því hefur verið kallað að peningamálstefnan yrði endurskoðuð, en það var ekki gert. En vandinn nú er auðvitað sá sem þarf að eiga við. Líklegasta leiðin til þess að skipta um gjaldmiðil virðist vera sú að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. En það tekur mörg ár. Það er mikilvægast núna að taka á vandamálunum sem blasa við á þessum tímum, og síðan taka á öðrum úrlausnarefnum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert