Nýr tónn sleginn í Evrópuumræðu VG

Steinunn Rögnvaldsdóttir
Steinunn Rögnvaldsdóttir

Mikill gerjun er í umræðu um Evrópumál innan Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, ekki síst í röðum Ungra vinstri grænna. Ungliðarnir köstuðu fyrri Evrópustefnu sinni fyrir róða í byrjun seinasta mánaðar og vinna nú að endurskoðun Evrópustefnunnar.

Þótt við blasi að umræðan um kosti og galla ESB sé að komast á fleygiferð innan flokksins þýðir það ekki að nein umskipti hafi orðið á afdráttarlausri stefnu VG gegn ESB-aðild. En endurmat fer fram, ekki síst vegna hamfaranna í fjármálalífinu, og nýjar skoðanakannanir hafa eflaust sín áhrif. Þær sýna að 2/3 hlutar svarenda sem segjast styðja VG vilja skipta um gjaldmiðil og meirihluti þeirra sem segjast myndu kjósa flokkinn segist styðja aðildarumsókn að ESB.

Mikil fundahöld eiga sér stað um Evrópumálin á vettvangi Evrópuhóps undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, varaformanns VG. Ung vinstri græn halda einnig opna fundi um hvað felst í aðild að ESB, seinast í gærkvöldi, þar sem Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við HÍ, var fenginn til að hafa framsögu. „Á landsfundi sem við héldum í byrjun október var samþykkt að endurskoða Evrópumálastefnu Ungra vinstri grænna. Við tókum Evrópumálakaflann út úr stefnuyfirlýsingu UVG vegna þess að okkur þótti hann ekki nógu góður og ekki byggður á rökfastri og upplýstri afstöðu. Því var beint til stjórnar að skoða málefni Evrópusambandsins, halda opna fundi og fræða félagana um þessi mál svo við gætum myndað okkur nýja stefnu, sem verður byggð á upplýstri og rökfastri afstöðu. Það þarf ekki að þýða að við munum sveigja í átt að ESB eða á móti,“ segir Steinunn Rögnvaldsdóttir, formaður UVG.

„Í augnablikinu höfum við enga sérstaka stefnu gagnvart ESB, við setjum marga varnagla varðandi inngöngu en viljum kynna okkur málin áður en afstaðan er mótuð,“ segir hún. „Okkur fannst við ekki vita nógu mikið um ESB. Okkur fannst við í raun bara hafa tekið einhverja páfagaukafrasa upp frá móðurflokknum, sem hefur skýra afstöðu og er á móti inngöngu í ESB. Við erum með líka stefnu en í þessu tilfelli fannst okkur okkar stefna ekki nægilega byggð á upplýstri afstöðu okkar sjálfra,“ segir Steinunn.

„Við erum með okkar stefnu sem samþykkt var á landsfundi og hún hefur ekkert breyst,“ segir Katrín. „Ég stofnaði Evrópuhóp innan flokksins í haust, sem hefur verið spjallvettvangur, og niðurstaða hans var að halda opna umræðufundi og eftir áramót verður málþing þar sem kafað verður ennþá dýpra í þessi mál,“ segir hún. Katrín segir þörf á að fara yfir þessa umræðu, ómögulegt sé að segja fyrir um hvert hún leiðir. Efnahagskreppan ýtir á þessa umræðu. „Ég vona að allir flokkar fari í endurmat, ekki eingöngu á þessu máli, heldur ýmsum öðrum stefnumálum,“ segir Katrín.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert