Öll minnisblöð vegna fundar viðskiptaráðherra og Darlings verði lögð fram

Alistar Darling, fjármálaráðherra Breta.
Alistar Darling, fjármálaráðherra Breta. Reuters

Á fundi utanríkismálanefndar Alþingis var beðið um að öll minnisblöð vegna fundar viðskiptaráðherra, Björgvins G. Sigurðssonar og Alistar Darling,  fjármálaráðherra Breta, þann 2 sept. sl. verði lögð fram. Þetta kemur fram í bókun sem Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, lét gera á fundinum.

Fram kemur að beðið sé um bréfið sem Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra vitnar ítrekað í í viðtalinu.

Þá er beðið um afrit af samningi sem íslensk stjórnvöld gerðu nýlega við hollensk stjórnvöld vegna deilna um innistæðureikninga.

„Af framangreindu símtali verður ekki annað ályktað en að viðskiptaráðherra hafi á fundi sínum þann 2. sept. gefið breskum stjórnvöldum loforð eða yfirlýsingu af einhverju tagi vegna stöðu Landsbankans og hugsanlega annarra  banka, sem síðan fjármálaráðherra virðist ekki kannast við. Vitnar fjármálaráðherra ítrekað í að hann hafi ekki verið viðstaddur fundinn þann 2. sept.  Af símtalinu verður ekki annað ráðið en að samráð milli viðskiptaráðherra og fjármálaráðerra hafi verið í algerum molum á ögurstundu,“ segir í bókuninni.

Þá er vísað til þess að símtal ráðherranna hafi lekið til fjölmiðla og að það hafi fyrst birst á Íslandi. „ Upplýsingaleki af þessum toga veldur óbætanlegum álithnekki á íslenskri stjórnsýslu og stórskaðar stöðu Íslands í samskiptum við stjórnvöld annarra landa.  Í kjölfar þessa er ólíklegt að ráðherrar annarra landa treysti sér til að eiga trúnaðarviðræður við íslenska stjórnvöld og ráðherra um nokkurt sem máli skipti um langt skeið. Verða slík samtöl væntanlega um léttvæg mál allt þar til tekist hefur að skapa traust á íslenskri stjórnsýslu á nýjan leik.

Beðið er um að nefndin verði upplýst um hvernig ofangreint símtal lak til fjölmiðla í ljósi alvarleika málsins,“ segir ennfremur í bókuninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert